Efnistök Frjálsrar verslunar hafa verið fjölbreytt í gegnum árin. Hér er rifjuð upp veitingarýni, sem Sigmar B. Hauksson ritaði haustið 1996. Í greininni fjallar hann um bestu veitingahúsin á þessum tíma, skemmtilegustu nýju veitingastaðina og þann athyglisverðasta. Af þeim níu veitingastöðum sem nefndir eru í greininni eru fimm enn starfandi í dag. Gefum Sigmari orðið:
„Íslenskur veitingahúsarekstur þróaðist töluvert á síðasta ári. Í raun má þó segja að um smá afturkipp hafi verið að ræða en framfarimar voru þó meiri. Það, sem er dapurlegt í þessum efnum, er braskaraliðið sem er að basla í að reka veitingahús sem stöðugt eru að fara á hausinn.
Það virðist ekkert hafa að segja þótt að þessir ævintýramenn greiði helst ekki nein opinber gjöld, hirði virðisaukann og borgi starfsfólkinu ekki sómasamleg laun, heldur ráði það í mörgum tilfellum sem verktaka. Þegar eitt veitingahúsið er komið á hausinn er einfaldlega fenginn ný kennitala og opnað nýtt veitingahús og sami leikurinn endurtekinn."

© Jim Smart (Jim Smart)
„Þau veitingahús, sem rekin eru á skynsamlegan hátt af fagfólki, bera af. Í þessu sambandi mætti nefna Hornið og Óðinsvé. Mesta breytingin er þó sú að Íslendingar eru orðnir Evrópubúar eða réttara sagt smekkur okkar er orðinn sá sami og meðal annarra íbúa álfunnar.

Miðjarðarhafseldhúsið er orðið óhemju vinsælt hér á landi og almenningur hefur orðið mun meiri áhuga og vit á mat en var. Íslenskir matreiðslumenn eru í auknum mæli farnir að taka þátt í erlendum keppnum og fara í námsferðir til útlanda."

© Eggert Jóhannesson (M mynd/Eggert Jóhannesson)
„Þekking og fagmennska íslenskra matreiðslumanna hefur því tekið stórt stökk upp á við á árinu. Bestu veitingahúsin á landinu eru Hótel Holt og Grillið á Hótel Sögu. Ragnar Wessman og hans menn á Grillinu eru í stöðugri framför. Frönsku vikurnar á Hótel Holti hafa verið stórgóðar. Þar hefur fólki gefist kostur á að fá frábæran mat og góð vín á afar sanngjörnu verði."
Fimm af níu enn í rekstri
Af þeim níu veitingastöðum, sem Sigmar fjallar um í grein sinni, eru fimm enn í rekstri en það eru Hornið í Hafnarstræti, Hótel Holt í Bergstaðastræti, Jómfrúin á Lækjargötu, Þrír frakkar á Baldursgötu og La Primavera, sem er bæði í Marshall-húsinu úti á Granda og Hörpu. La Primavera var upphaflega í Húsi verslunarinnar en flutti svo í Austurstræti. Þeim stað var lokað árið 2011 en árið 2018 opnaði La Primavera á nýjan leik en nú í Marshall-húsinu og árið 2021 í Hörpu.
Grillinu á Hótel Sögu var lokað árið 2022 en ári áður keypti ríkið hótelið af Bændasamtökunum. Grænn kostur á Skólavörðustíg 8 hætti rekstri árið 2014, í húsinu er nú veitingastaðurinn Reykjavík Fish Restaurant og í bakhúsi er Block Burger. Veitingastaðurinn Við Tjörnina í Templarasundi lokaði sömuleiðis árið 2014, í því húsi er nú Kvosin Hótel og veitingastaðurinn La Barceloneta. Veitingastaðurinn Óðinsvé var á Hótel Óðinsvé á Þórsgötu. Þar er hefur veitingastaðurinn Snaps nú verið rekinn um árabil.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Lífskúnstner og náttúruunnandi
Sigmar B. Hauksson var landsþekktur fjölmiðlamaður. Hann starfaði hjá Ríkisútvarpinu til margra ára, bæði á fréttastofu en einnig við þáttagerð. Hann var lífskúnstner, matgæðingur mikill og hafði gaman að því að ferðaðist. Eftir hann liggja því fjöldi greina um mat og ferðalög. Sigmar var mikill skotveiðimaður og gegndi formennsku í Skotveiðifélagi Íslands (Skotvís) um árabil. Sem formaður félagsins lagði hann mikla áherslu umgengni veiðimanna og virðingu fyrir náttúrunni en náttúran var eitt hans helsta hugðarefni. Eftir stutt veikindi lést Sigmar árið 2012, þá 62 ára gamall.
Umfjöllunin birtist í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur lesið greinin í heild hér.