Björgólfur Thor Björgólfsson segir að hann hefði ekki getað farið inn á kólumbíska símamarkaðinn á verri tíma. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs, á í dag minnihluta í WOM í Kólumbíu eftir að hópur fjárfesta lagði fjarskiptafyrirtækinu til nýtt fjármagn.

Eftir að hafa byggt upp eitt stærsta símafyrirtæki Síle með góðum árangri bauð Novator í kólumbíska félagið Avantel í árslok 2019 og gekk frá kaupsamningi í febrúar 2020. Nafni félagsins var í kjölfarið breytt í WOM. Samhliða tók Novator þátt í og vann útboð þar sem það greiddi ríflega 30 milljarða króna fyrir viss tíðnisvið í Kólumbíu og þurfti þá að sjá fyrir fjarskiptasambandi á 674 stöðum í landinu.

„Í mars byrjar Covid-faraldurinn sem í rauninni eyðilagði alveg Kólumbíu verkefnið. Við gátum ekki farið inn á verri tíma, en samgöngureglum og útgöngubönnum var stjórnað af hernum og mun strangari en við þekktum annars staðar frá,“ segir Björgólfur í viðtali í Frjálsri verslun. Hann rekur vandamálin til þriggja þátta.

Í fyrsta lagi fór kostnaður verkefnisins ríflega 50% fram úr áætlun. Á sama tíma og WOM í Kólumbíu var að stækka og ráða inn fólk voru verslanir þess tómar. Félagið hafði lagt út fyrir tíðnir og búnað sem erfitt var að nýta í samræmi við fyrri áætlanir vegna ýmissa tafa. Bæði hafi samkomutakmarkanir gert félaginu erfitt fyrir og regluverkið í Kólumbíu reyndist mun svifaseinna en Novator reiknaði með.

Í öðru lagi hafði fjárfestingafélagið stefnt að því að fá inn minnihlutaeiganda á móti sér til að fara með um 30% hlut. Vegna faraldursins reyndist vonlaust að fá fjárfesta í svona stórt verkefni að sögn Björgólfs og Novator sá því alfarið um fjárfestinguna. Fjárfestingafélagið þurfti því að leggja út tvöfalt meira en það gerði ráð fyrir í upphafi vegna stóraukins kostnaðar og þar sem það stóð eitt að verkefninu.

Í þriðja lagi tók verðbólga að aukast, vaxtastig hækkaði verulega á heimsvísu á árunum 2022 og 2023 og öll fjármögnun varð mun erfiðari. Verðbólga í Kólumbíu fór hæst upp í 13,3% í mars 2023.

„Þeir sem höfðu alltaf lánað okkur 50% af öllu verkefninu voru kínverskir bankar sem höfðu staðið við hlið okkar í Póllandi og á Íslandi, í tengslum við Huawei sem var aðalbirgir okkar. Þessar lánveitingar stöðvuðust út af deilum Kína og Bandaríkjanna um Huawei. Við lentum í miðjunni á því. Huawei var allt í einu ekki sama batterí og það hafði verið síðustu 10 árin. Þeir voru ekki lengur samkeppnishæfir og gátu ekki lánað okkur eins mikið og þeir höfðu gert. Það truflaði líka.

Það má segja að þetta hafi verið eins og hinn fullkomni stormur með Covid, viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Kína, og verðbólguskot sem leiddi til þess að stýrivextir í Bandaríkjunum fóru úr 0% í meira en 5%. Þetta var svo jafnt og þétt að þetta var óviðráðanlegt. Það var ekki hægt að ráða við þetta nema að fara í greiðslustöðvunarferli.“

WOM í Kólumbíu sótti um greiðslustöðvun í apríl 2024. Fjárfestingafélagið SUR Holdings, sem samanstendur af fjárfestum frá Bandaríkjunum og Bretlandi, samþykkti nýlega að kaupa meirihluta í símafyrirtækinu og leggja til nýtt fjármagn. Í fjárfestahóp SUR eru m.a. fjárfestar sem hafa unnið fyrir WhatsApp og aðrir komið að símamarkaðnum í Austur-Evrópu. Gert er ráð fyrir að WOM í Kólumbíu verði komið úr greiðslustöðvum á öðrum ársfjórðungi.

5 þúsund störf í húfi

Björgólfur segir það hafa verið þrekvirki að koma þessu saman, fá inn nýtt fjármagn og halda fyrirtækinu gangandi. Hann kveðst mjög ánægður að þetta sé komið í höfn enda hafi um 5 þúsund störf verið í húfi, þar af 3 þúsund starfsmenn og 2 þúsund verktakar.

Þótt Novator hafi tapað á verkefninu í Kólumbíu hingað til, segir hann að það sé að birta til hjá fyrirtækinu.

„Fyrirtækinu gengur vel og er enn með 8 milljónir kúnna. Þeir hafa ekki bætt við sig kúnnum síðasta árið en þeir hafa haldið viðskiptavinum sínum, sem er gott. Ég held að rekstrarumhverfið í Kólumbíu sé að fara að batna mikið þar sem tveir af samkeppnisaðilunum eru að sameinast. Við það fækkar stórum samkeppnisaðilum úr fjórum í þrjá.

Hjá WOM eru nýir meirihlutaeigendur komnir við stjórnvölinn og við erum í raun orðnir passífir hluthafar með fulltrúa í stjórn.“

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali í nýju tímariti Frjálsrar verslunar, þar sem Björgólfur ræðir einnig um erfiðleika í rekstri WOM í Síle í Covid. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.