Björgólfur Thor Björgólfsson hefur að mestu leyti lokið aðkomu sinni að fjarskiptageiranum í Suður-Ameríku eftir að hafa á undanförnum áratug byggt upp tvö af stærstu fjarskiptafyrirtækjum Síle og Kólumbíu undir merkinu WOM.

Björgólfur, sem er ríkasti maður landsins samkvæmt Forbes, er í ítarlegu viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar sem kemur í fyrramálið. Þetta er fyrsta viðtal Björgólfs í íslenskum fjölmiðli svo árum skiptir.

Björgólfur hefur fjárfest í alþjóðlegum fjarskiptafyrirtækjum í meira en tvo áratugi og setti m.a. mark sitt á íslenska símamarkaðinn með Nova sem fjárfestingarfélagið hans Novator stofnaði árið 2006.

Hann hefur nú ákveðið að yfirgefa símabransann þar sem hann telur fjarskiptafyrirtæki ekki njóta nægilega mikils ávinnings miðað við þær umfangsmiklu fjárfestingar sem þau þurfa að leggja út fyrir.

Í viðtalinu gerir Björgólfur upp tíma sinn í Suður-Ameríku og ræðir meðal annars um breytt viðhorf sitt til fjarskiptageirans, áherslur hans í fjárfestingum í dag og skoðanir hans á stríðinu í Úkraínu.

Hægt er að kaupa eintak af tímariti Frjálsrar verslunar hér. Tímaritinu verður dreift til áskrifenda í fyrramálið.