Brett Albert Vigelskas, framkvæmdastjóri Costco á Íslandi, er með langhæstu laun forstjóra stóru matvörukeðjanna á Íslandi. Í fyrra námu mánaðarlaun hans að meðaltali 9,2 milljónum. Er þetta þó töluvert lægri upphæð en árið 2022 þegar hann var með 13,5 milljónir.
Næst á eftir Brett Albert koma forstjórar Haga og Festi. Finnur Oddsson, forstjóri Haga, sem rekur Hagkaup og Bónus, var með 5,8 milljónir að meðaltali á síðasta ári, sem er um 150 þúsund krónum meira en árið 2022. Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, sem rekur Krónuna, var með 5,7 milljónir í fyrra, sem er töluvert meira en árið 2022 þegar launin námu 4,1 milljón að meðaltali.
Í þriðja sæti listans er svo Gréta María Grétarsdóttir. Hún var í fyrra titluð forstjóri Heimkaupa en er í dag framkvæmdastjóri matvöruverslunarinnar Prís, sem opnaði um síðustu helgi. Í fyrra var hún með 5,5 milljónir í launatekjur á mánuði að meðaltali en árið 2022 voru launin 4,5 milljónir.
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaup, sem rekur Nettó, Krambúðina, Kjörbúðina og Iceland, var í fyrra með 3,7 milljónir króna en árið á undan námu launin 3,4 milljónum.
Hægt er að kaupa Tekjublaðið í forsölu hér. Að auki verður blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.
Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.