Í eignasafni Björgólf Thors Björgólfssonar, ríkasta manni Íslands, eru ríflega 50 fyrirtæki, þar af mörg tiltölulega lítil sprotafyrirtæki. Stór hluti af fjárfestingum hans hefur verið í gegnum fjárfestingafélagið Novator Partners. Hann stofnaði félagið og opnaði skrifstofu í London árið 2004.

„Ég varð hugsi um það um daginn að ég er búinn að vera með Novator og London skrifstofuna í 21 ár, sem er flott í sjálfu sér, maður þarf hins vegar að breyta til á tíu eða tuttugu ára fresti. Novator er og verður áfram mitt fyrirtæki en ég þarf að aðlagast breyttum heimi. Það er ekki sama þörf á stórum skrifstofum, jafnmörgu fólki og ferlum og þurfti fyrir 10 eða 20 árum.

Það hefur orðið mikil þróun í því hvernig atvinnufjárfestir vinnur í dag, sérstaklega ef þú ert ekki að stýra annarra manna peningum. Það eru komin mörg sérhæfð fyrirtæki sem geta aðstoðað mann við greiningarvinnu og að sjálfvirknivæða ákveðna verkferla með gervigreind. Auk þess er orðið mun auðveldara að funda með fólki á Zoom eða Teams.“

Hann segir að markaðir hreyfist mun hraðar en áður. Stór stökk eða dýfur, sem komu kannski upp á 10-15 ára fresti áður, séu að verða tíðari.

„Markaðir eru að fara hraðar upp og hraðar niður en áður. Hraðinn á öllum breytingum og samskiptum á mörkuðum hefur aukist. VIX-vísitalan, sem mælir óróa og sveiflur á mörkuðum, hefur reglulega farið mjög hátt upp á síðustu misserum og ég á ekki von á að það breytist á næstunni. Besta leiðin til að komast í gegnum sveiflukennda markaði er að vera sveigjanlegur og aðlaga sig að breyttum aðstæðum eins hratt og hægt er,“ segir Björgólfur.

„Ég hef nálgast fjárfestingar þannig að ég greini fyrirtæki og markaði, bý til fimm ára plan og reyni að halda mig við það. Ég hef yfirleitt ákveðið svigrúm til aðlagast aðstæðum, en það er erfitt að aðlaga sig að svona snöggum hreyfingum, nema þú sért bara hlutabréfafjárfestir að kaupa og selja á opnum markaði. Það er hvað erfiðast að ráða við þennan hraða.“

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Björgólf í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.