Bruggverksmiðjan Bravo í Pétursborg var seld til Heneken árið 2002 fyrir 41 milljarð króna, eða sem nemur tæplega 120 milljörðum króna á núverandi verðlagi.

Salan á Bravo var á þeim tíma ein stærstu viðskipti í sögu íslensks viðskiptalífs. Björgólfur, sem leiddi verkefnið, fékk hundrað milljónir dala í sinn hlut fyrir söluna.

Eftir innrás Rússlands í Úkraínu árið 2022 og viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja seldu fjöldi stórra alþjóðlegra fyrirtækja starfsemi sína í landinu.

Tveimur áratugum eftir kaupin á Bravo gekk Heineken frá sölu á rússnesku starfseminni sinni, sem innihélt sjö brugghús í landinu, á eina evru í ágúst 2023. Heineken, sem hóf söluferlið í mars 2022, tók á sig 300 milljóna evra sölutap.

„Ég fékk símtöl frá aðilum sem ég þekki sem spurðu hvort við ættum ekki að kaupa þetta aftur. Ég sagði bara, til hvers? Ef einhver er að selja á eina evru, þá er oftast ástæða fyrir því. Það er yfirleitt rétt verðmat. Ég var a.m.k. ekki á leiðinni þarna inn aftur,“ segir Björgólfur.

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Björgólf í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.