Björgólfur Thor Björgólfsson, ríkasti maður Íslands samkvæmt Forbes, var í Rússlandi í áratug áður en hann seldi bruggverksmiðjuna Bravo árið 2002. Spurður hvernig stríðið í Úkraínu, sem hófst fyrir þremur árum, horfir við honum segir Björgólfur í viðtali í Frjálsri verslun:

„Þetta er einfaldlega skelfilegt fyrir bæði Rússland og Úkraínu. Ég hef sagt í langan tíma að þetta geti bara endað á einum stað og það er á samningaborðinu,” segir Björgólfur í viðtali í Frjálri verslun.

Hann segir eina afleiðingu stríðsins vera þá að Rússland sé í raun orðið einræðisríki aftur. Þegar hann bjó í Rússlandi hafi samfélagið verið að færast í átt að auknu lýðræði en sú þróun hafi snúist við eftir atburði síðustu ára. Stríðsástandið í Úkraínu haldi núverandi stjórnarfari við lýði og komi í veg fyrir opinbera umræðu um lýðræði.

Björgólfur telur ákvörðun Vladímír Pútíns Rússlandsforseta að ráðast inn í Úkraínu í febrúar 2022 skelfilega og óverjanlega. Hann telur hins vegar fréttaflutning um orsakir stríðsins oft einfeldnislegan og draga upp svarthvíta mynd.

Það hafi lengi verið vísbendingarnar um að málin myndu þróast með þessum hætti og hann telur í því samhengi ábyrgð Evrópu vera mikla.

„Evrópa er vandamálið. Rússland er birtingarform á vandamálinu sem er Evrópa. Hver er stefna Evrópu og Evrópusambandsins í málefnum NATÓ? Vilja þeir bara leyfa Bandaríkjamönnum að stýra förinni þar sem þeir hafa séð um að borga brúsann? Við sjáum að Bandaríkjamenn eru hættir að sætta sig við þá stöðu og leiðtogar Evrópuríkja neyðast nú til að bregðast við og auka útgjöld til varnarmála.“

Björgólfur tekur að ýmsu leyti undir málflutning Jeffrey Sachs, hagfræðiprófessors við Columbia og ráðgjafa Sameinuðu þjóðanna, sem úthúðaði utanríkisstefnu Bandaríkjanna og gagnrýndi Evrópu fyrir stefnuleysi í utanríkismálum í erindi sínu á Evrópuþinginu þann 19. febrúar síðastliðinn. Björgólfur bendir á að Sachs varpi fram áleitnum spurningum um sögulegar staðreyndir þó hann sé ekki sammála öllu sem hann segir.

Sachs, sem var áður prófessor við Harvard í tuttugu ár, kallaði eftir skýrri og sjálfstæðri utanríkisstefnu frá Evrópu sem taki m.a. mið af stöðu Rússlands. Hann hvatti leiðtoga Evrópuríkja til að virkja samtalið við rússnesk stjórnvöld en það væri í þágu öryggis álfunnar, þar á meðal Úkraínu, að hans mati.

Í stuttu máli sagði Sachs að Vesturlönd hefðu ekki nýtt sér upplausn Varsjárbandalagið árið 1991 í kjölfar sameiningar Þýskalands, til að styrkja tengsl við Rússland. Varsjárbandalagið var stofnað árið 1955 til móts við NATÓ. Þvert á samkomulag um að NATÓ skyldi ekki færa sig tommu til austurs, hafi Bandaríkin árið 1994 ákveðið að til lengri tíma skyldi NATÓ stækka alla leið til Úkraínu að sögn Sachs.

Stækkun NATÓ hófst árið 1999 með inngöngu Ungverjalands, Póllands og Tékklands þrátt fyrir hörð mótmæli rússneskra stjórnvalda. Í annarri stækkunarlotunni árið 2004 bættust við sjö lönd; Rúmenía, Búlgaría, Slóvakía, Slóvenía og Eystrasaltsríkin. NATÓ var þar með komið upp að landamærum Rússlands og aftur mótmæltu rússnesk yfirvöld.

Sachs vísaði í fræga ræðu Pútíns á Öryggisráðstefnunni í München þar sem hann sagði að Rússar myndu beita sér af hörku gegn frekari stækkun NATÓ til austurs. Ári síðar var ályktað á fundi NATÓ í Búkarest að Úkraína og Georgía myndu í framtíðinni fá aðild að bandalaginu. Sachs sagði Úkraínu og Georgíu leika lykilhlutverk í langtímamarkmiði bandarískra stjórnvalda en með þeim væri hægt að takmarka verulega aðgang Rússa að Miðjarðarhafinu.

Björgólfur bendir einnig á að rússneskir minnihlutahópar hafi myndað 17% af mannfjölda Úkraínu samkvæmt manntali frá 2001. Þetta hlutfall sé afar hátt í alþjóðlegum samanburði. Minsk-samkomulagið svokallaða, sem var gert til að binda enda á átökin í Donbas á árunum 2014 og 2015, fól m.a. í sér að stefnt yrði að sveitarstjórnarkosningum í Donbas-héruðunum.

Sachs sagði Bandaríkin og Úkraínu hafa ákveðið að víkja frá Minsk-samkomulaginu og gagnrýndi þýsk og frönsk stjórnvöld, sem komu að samningsferlinu í Minsk, fyrir aðgerðarleysi.

„Með þessu er verið að ýta Rússlandi beint í fangið á Kínverjum, Norður-Kóreu og Íran. Rússar og Kína hafa aldrei staðið þétt saman. Ég held að Bandaríkjamenn séu að átta sig á þessu núna – viljum við hafa Rússa með eða á móti okkur gagnvart Kína, sem er alvöru ógn fyrir Bandaríkin, en þó aðallega við lýðræðisríki – þar sem Kínverjar styðja engan veginn við lýðræðissamfélög,“ segir Björgólfur.

Hann rifjar einnig upp að Pútín hafi verið fyrsti þjóðarleiðtoginn sem hafði samband við George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, eftir hryðjuverkaárásirnar 9. september 2001 og boðið Bandaríkjum hjálparhönd. Bandaríkin hafi nýtt sér þann stuðning við innrásina í Afganistan.

„Þetta varð hins vegar mjög fljótt gleymt, það var ekkert verið að byggja ofan á þessu. Þarna hefði verið hægt að grípa tækifærið. Ég hefði viljað sjá Rússland fara inn í NATÓ. Það hefði verið ákjósanlegt. Af hverju var aldrei hægt að hugsa þann möguleika að NATÓ myndi bara stækka með öllum austur-Evrópulöndunum, þar á meðal Rússlandi? Og horfa þannig á sameiginlega heildarmynd um frið. “

Björgólfur bendir einnig á að Rússar almennt telji þeir hafa átt skilið frekari viðurkenningu fyrir framlag sitt til friðar í Evrópu í síðari heimsstyrjöldinni.

„Þeir misstu 27 milljón manns á meðan Bandaríkin misstu hálfa milljón hermanna og Þjóðverjar um tvær til þrjár milljónir. Þeim finnst þeir aldrei fá virðingu fyrir sitt framlag og eru langvarandi pirraðir yfir þessu.“

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Björgólf í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.