Sumarið er tíminn til að ferðast, kanna nýja staði og safna minningum. En hvert á að fara þegar valmöguleikarnir eru endalausir? Við spurðum nokkra einstaklinga úr atvinnulífinu hvaða áfangastaðir standa upp úr hjá þeim – frá suðrænum ströndum til norrænnar fegurðar, frá hámenningu til afslappaðs strandlífs.

Hér að neðan segir Anna Fríða Gísladóttir frá sínum uppáhalds sumarleyfisstað.

„Fyrir tveimur árum síðan fór ég í fyrsta skipti til Grikklands. Sú ferð situr enn fast í minni, bæði vegna matarins og fegurðarinnar. Það var létt að ferðast með börnin okkar þangað en við héldum okkur fjarri Aþenu,“ segir Anna Fríða Gísladóttir, framkvæmdastjóri markaðssviðs Nóa Síríus.

Ferðin var árið 2023, og þó hún hafi aðeins farið einu sinni, er ljóst að Grikkland hefur tryggt sér fastan sess í ferðaplönum fjölskyldunnar. „Ég hef bara farið einu sinni en stefni á að fara oftar.“

Ferðalagið hófst á EverEden, resorti um 30 mínútur frá Aþenu með „einkaströnd og allt upp á tíu“. Þar var hægt að slaka á áður en fjölskyldan hélt út á eyjuna Hydra, sem stal algjörlega senunni. „Hydra er einn dásamlegasti staður sem ég hef komið á, klukkutíma bátur frá Aþenu. Á eyjunni eru engir bílar og því er eyjan rosalega hreinleg og gaman að vera þar. Vörur eru ferjaðar með ösnum og hestum og lítið mál að ganga á milli staða.“

Þau ferðuðust einnig á smærri eyjar í grennd við Hydra sem voru ekki síðri. En það sem stóð upp úr var samspil „matarins, hitastigsins og fegurðarinnar. Fullkomin.“ Grikkir heilluðu fjölskylduna einnig með hlýlegri gestrisni. „Grikkir tóku líka vel á móti börnunum okkar og gengu þeir oftar en ekki út úr verslunum með litlar gjafir sem afgreiðslufólk gaf þeim.“

Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.