Árið 2023 var krefjandi fyrir íslenska fjölmiðla. Rekstrarniðurstöður án ríkisstyrkja sýna að allir fjölmiðlar, sem gefa upp afkomu sína töpuðu, utan eins.

Myllusetur ehf., útgáfufélag Viðskiptablaðsins, skilaði hagnaði upp á 6 milljónir króna án ríkisstyrks fyrir tekjuskatt. Hagnaður eftir skatta með ríkisstyrk nam 36,6 milljónum króna. Veltan jókst um 20% milli ára.

Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) skilaði mestu tapi ársins án ríkisstyrks, eða 5.704 milljónum króna. Afkoma Ríkisútvarpsins var jákvæð um 6,1 milljón króna með ríkisstyrknum. Tekjur Ríkisútvarpsins jukust um 10% milli ára.

Viðskiptablaðið prentað í Landsprenti.
© BIG (VB MYND/BIG)

Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðsins, tapaði mest einkamiðlanna. Tapið nam 39,8 milljónum eftir skatta en 147 milljónum króna án ríkisstyrks. Veltan jókst um 20% milli ára.

Sameinaða útgáfufélagið ehf., sem gefur út Heimildina, tapaði 41 milljón króna en hagnaður var 11 milljónir króna að meðtöldum ríkisstyrk.

Sameinaða útgáfufélagið, sem varð til með sameiningu Kjarnans og Stundarinnar, jók veltu sína mest allra fjölmiðla árið 2023 eða um 38% en tekjur Heimildarinnar og Kjarnans eru samanlagðar.

Tekjum félagsins er skipt í tvo liði, sölu og aðrar tekjur. Aðrar tekjur stóraukast, fara úr 32 milljónum árið á undan í 103 milljónir árið 2023. Ekki er að finna skýringu á öðrum tekjum í ársreikningi félagsins.

Fröken ehf., útgáfufélags Reykjavik Grapevine, tapaði einnig 41 milljón án ríkisstyrk en tapið með styrk eftir tekjuskatt nam 30 milljónum króna.

Fjölmiðlatorgið ehf., útgáfufélag DV, tapaði 1 milljón króna árið 2023. Félagið hóf rekstur það ár og þar af leiðandi fékk félagið ekki ríkisstyrk. Þess má geta að félagið fékk á þessu ári 31 milljón í styrk.

Fjallað er um fjölmiðla í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.