Flugiðnaðurinn, sem og ferðaþjónustan, hefur hægt og bítandi tekið við sér á síðustu árum í kjölfar fullra afléttinga á takmörkunum vegna heimsfaraldursins.

Icelandair var með mestu veltuna af öllum flugfélögum á síðasta ári. Velta félagsins nam 210 milljörðum króna og jókst um 40 milljarða milli ára. Hafði veltan aukist um tæplega 100 milljarða á milli áranna 2022 og 2021.

Velta flugfélagsins Play nam tæplega 39 milljörðum króna á síðasta ári sem var annað heila rekstrarár í sögu félagsins, en jómfrúarflug Play fór í loftið í júní 2021. Síðan þá hefur félagið vaxið hratt og eru áfangastaðir þess orðnir 43 talsins, þar af eru 37 í Evrópu, fimm í Norður-Ameríku, og einn í Norður-Afríku.

Á eftir Icelandair og Play kemur flugfélagið Atlanta, en félagið velti 30,5 milljörðum króna á síðasta ári. Hagnaðist félagið um þrjá milljarða króna í fyrra samanborið við 2,7 milljarða hagnað árið áður. Atlanta hefur skilað samfelldum hagnaði á hverju ári frá árinu 2009.

Nánar er fjallað um flugþjónustufyrirtæki í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.