Marel trónir enn á toppnum sem stærsta fyrirtæki landsins út frá veltu en þetta kemur fram í 500 stærstu, bók Frjálsrar verslunar. Tekjur félagsins námu 256,7 milljörðum króna árið 2023 og jukust um 6% frá fyrra ári. Hagnaður eftir skatta nam 4,6 milljörðum.

Icelandair helst þá í öðru sæti með veltu upp á 210,2 milljarða, sem er 23% aukning frá árinu 2022. Hagnaður nam ríflega 1,5 milljörðum króna.

Hagar var þriðja stærsta félagið árið 2022 en færist nú niður um eitt sæti. Tekjur félagsins námu 175,1 milljarði og jukust um 6% milli ára en hagnaður nam ríflega 5 milljörðum. Landsbankinn færist upp í þriðja sætið en hafði verið í tíunda sæti árið 2023.

Aðeins eitt félag datt út af listanum milli 2022 og 2023 en Arion banki kom inn í stað Rio Tinto.

Samanlögð velta tíu stærstu fyrirtækja landsins nam 1.441,3 milljörðum króna árið 2023. Velta sjö efstu fyrirtækjanna jókst milli ára en dróst saman hjá Eimskip, Alcoa og Norðuráli.

Norðurál var sömuleiðis eina fyrirtækið sem skilaði tapi árið 2023, um 5,8 milljarða, en álverin fundu vel fyrir breyttum markaðsaðstæðum og raforkuskerðingum eftir metárin 2021 og 2022.

Viðskiptabankarnir þrír skiluðu mestum hagnaði eftir skatta, samtals 83,5 milljörðum króna. Hin fyrirtækin, Norðurál er tekið út fyrir sviga, högnuðust samanlagt um 27,8 milljarða eftir skatt.

Nánar er fjallað um helsti kennitölur í rekstri stærstu fyrirtækja landsins í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem kom út á dögunum.