Heildverslun með lyf og lækningatæki er stór geiri en til marks um það námu heildartekjur tíu stærstu fyrirtækja innan geirans 105 milljörðum króna. Samanlagðar tekjur félaganna jukust um 12 milljarða á milli áranna 2022 og 2023, eða um 13%. Til samanburðar jukust tekjur félaganna einungis um 1,8 milljarða á milli áranna 2021 og 2022, eða um 2%.

Distica hefur verið áberandi stærsta fyrirtækið í geiranum á síðustu árum en tekjur félagsins námu 33 milljörðum króna í fyrra og jukust um 17% á milli áranna 2022 og 2023. Vistor kom þar næst á eftir með 21 milljarðs króna veltu en tekjur félagsins jukust um 21% á milli ára. Parlogis kom næst með 18,9 milljarða en tekjur félagsins jukust um 5% frá fyrra ári. Icepharma velti 15,2 milljörðum sem er einum milljarði meiri velta en árið áður. Töluvert langt er síðan í næstu fyrirtæki en þarna á eftir kemur Medor með 4 milljarða tekjur. Lyfjaver og Artasan fylgja svo fast á hæla Medor með tæplega 4 milljarða veltu.

Nánar er fjallað um heildsölur með lyf og lækningarvörur í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.