Sumarið er tíminn til að ferðast, kanna nýja staði og safna minningum. En hvert á að fara þegar valmöguleikarnir eru endalausir? Við spurðum nokkra einstaklinga úr atvinnulífinu hvaða áfangastaðir standa upp úr hjá þeim – frá suðrænum ströndum til norrænnar fegurðar, frá hámenningu til afslappaðs strandlífs.
Hér er ein af uppáhalds borgum Brynju Dan.

„Þar sem ég var að lenda frá Stokkhólmi vil ég mæla með þeim áfangastað,“ segir Brynja Dan Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Garðabæ og eigandi Extraloppunnar.
Brynja er heilluð af sænsku höfuðborginni, sem hún telur oft fá minni athygli en hún á skilið. „Mér finnst Stokkhólmur dásamleg borg og vill oft fá minni athygli en Kaupmannahöfn. Borgin er svo falleg og hrein og gaman að rölta um bæinn sem og gamla bæinn.“
Hún mælir sérstaklega með því að njóta fjölbreyttrar veitingamenningar og verslunarstemningar borgarinnar. „Það er svo gaman að fylgjast með tískunni þarna, kíkja í allar fallegu vintage búðirnar og rápa á milli.“ Þegar kemur að veitingastöðum á hún sinn uppáhaldsstað. „Ég verð að mæla með Berns Asiatiska veitingastaðnum sem opnar svo efri hæðina hjá sér þegar líða fer á kvöldið og þar er skemmtistaður. Eins er víst mjög flottur dögurður á sama stað.“
Gisting skiptir líka máli, og Brynja hefur fundið sitt uppáhaldshótel. „Ég hef gist tvisvar á Downtown Camper sem er einstaklega skemmtilegt hótel og vel staðsett. Alltaf eitthvað um að vera á því, góður matur og falleg heilsulind efst með sundlaug og bar sem er nauðsynlegt að kíkja á.“
Að lokum er ekki hægt að heimsækja Svíþjóð án þess að njóta þjóðlegustu sælkeravörunnar. „Svíinn er þekktur fyrir kanilsnúðana sína svo maður lætur sig hafa það að fá sér a.m.k. einn á dag með kaffinu.“
Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.