Stærsta húsgagnaverslun landsins er Ikea en Miklatorg hf., rekstrarfélag Ikea á Íslandi, velti 15,2 milljörðum króna á rekstrarárinu sem lauk 31. ágúst 2023 og nam hagnaður 1,1 milljarði.
Jysk, áður Rúmfatalagerinn, kemur næst á eftir Ikea en verslanirnar veltu 8,8 milljörðum króna á rekstrarárinu sem lauk 29. febrúar 2024 og nam hagnaður 1,4 milljörðum.
Ef litið er fram hjá alþjóðlegum verslunarkeðjum er GER verslanir ehf. stærsta félagið á sviði húsgagnaverslana út frá veltu en undir GER verslanir falla meðal annars Betra Bak og Húsgagnahöllin.
Félagið velti tæplega 3,3 milljörðum á reikningsárinu sem lauk 29. febrúar 2024 og nam hagnaður 56 milljónum en um var að ræða viðsnúning frá fyrra ári þar sem tap var af rekstrinum. Egill Fannar Reynisson, framkvæmdastjóri GER verslana, segir árið hafa verið krefjandi fyrir húsgagnaverslanir á ýmsa vegu, sér í lagi vegna verðbólgu og hárra vaxta.
„Þrátt fyrir allt þá hefur þetta allt gengið með ágætum, við höfum vissulega verið með gott aðhald á þeim liðum rekstrarins sem við getum stýrt. Við erum í miklum samskiptum við okkar helstu birgja og höfum náð góðum samningum á undanförnum árum sem er lykillinn að því vöruverði sem við höfum upp á að bjóða,“ segir Egill.
Ellefu stærstu húsgagnaverslanir eru teknar fyrir í bókinni 500 stærstu. Á meðan stærstu húsgagnaverslanir landsins hafa verið með innan við 10% hagnaðarhlutfall síðustu ár sker Rúmfatalagerinn sig úr en verslanirnar voru til að mynda með 16% hagnaðarhlutfall í fyrra.
Nánar er fjallað um málið í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.