Truenorth Nordic ehf. er langstærsta félagið á sviði kvikmyndagerðar hér á landi. Hagnaður nam 220 milljónum í fyrra, samanborið við 308 milljóna hagnað árið 2022 og 172 milljóna hagnað 2021.

Félagið velti 141,5 milljörðum króna í fyrra, sem er aukning um 12% frá fyrra ári og 265% aukning frá árinu 2021. Skýring á tekjuaukningu frá árinu 2021 má líklega rekja að  stórum hluta til þess að félagið kom að framleiðslu fjórðu þáttaraðar True Detective, sem tekin var upp hér á landi.

„Undanfarin ár hefur félagið unnið að mjög stórum verkefnum, sem hafa verið margfalt meiri af umfangi en nokkur önnur verkefni sem hingað til lands hafa komið. Allir okkar viðskiptavinir eru erlendir þannig að þessi verkefni skapa gríðarlegar gjaldeyristekjur. Á sama tíma skapa þau miklar tekjur fyrir ferðaþjónustuna og margskonar þjónustufyrirtæki sem byggst hafa upp í kringum kvikmyndageirann og þessi verkefni skapa störf fyrir fjölmarga íslendinga sem að þeim vinna,“ segir Leifur B. Dagfinnsson, forstjóri Truenorth.

Næst stærsta framleiðslufyrirtækið er RVK Studios, sem er í eigu Baltasar Kormáks, en fyrirtækið velti 1,5 milljörðum króna í fyrra og jukust tekjur um 23% milli ára. Tap var þó af rekstrinum um 90 milljónir árið 2023 og um 60 milljónir 2022. Glassriver velti þá ríflega 1,2 milljörðum, sem var 31% aukning milli ára, og nam hagnaður 2 milljónum.

Samanlagt nam velta tíu stærstu fyrirtækjanna í kvikmyndagerð - sem tekin eru fyrir í bókinni 500 stærstu - 16,9 milljörðum króna en aðeins fimm af tíu félögum skiluðu hagnaði í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.