Tekjur tíu stærstu læknastofa landsins námu 11,2 milljörðum króna á árinu 2023 og jukust um 22% á milli ára. Allar tíu stærstu læknastofur landsins juku veltuna á milli ára, og nam veltuaukningin að meðaltali 25% milli ára. Allar stofurnar nema ein skiluðu jákvæðri afkomu á árinu.
Klíníkin í Ármúla velti 2,8 milljörðum í fyrra og hagnaðist um 116 milljónir samanborið við 217 milljóna hagnað árið áður.
Læknisfræðileg myndgreining ehf., sem rekur Röntgen Domus, velti tæpum 1,7 milljörðum króna á síðasta ári og hagnaðist um 432 milljónir króna. Hagnaðarhlutfall stofunnar nam því 26%. Um er að ræða elsta og stærsta fyrirtækið innan læknisfræðilegrar myndgreiningar á Íslandi.
Heilsugæslan Höfða velti tæpum 1,6 milljörðum króna á árinu en tapaði 11 milljónum samanborið við 33 milljóna hagnað árið áður.
Augnlæknastofan Sjónlag jók veltuna um 37,5% milli ára, og Handlæknastöðin, nágranni Sjónlags í Glæsibæ, jók veltuna um þriðjung á milli ára.
Heimilislæknastöðin velti tæpum milljarð króna í fyrra samanborið við 810 milljóna veltu árið áður. Stöðin sneri afkomunni við milli ára, hagnaðist um 55 milljónir samanborið við 22 milljóna tap árið áður.
Nánar er fjallað um læknastofur í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.