Magnús Ingi Einarsson, fjármálastjóri fjárfestingarfélagsins SKEL, var launahæsti fjármálastjórinn árið 2023 en áætlaðar launatekjur námu að meðaltali 10,6 milljónum króna á mánuði.

Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í gær.

Magnús Ingi var einnig með að meðaltali 10,6 milljónir á mánuði í Tekjublaðinu í fyrra. Hann tók við stöðunni árið 2022, á sama tíma og Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason var ráðinn forstjóri.

Næst á eftir honum kemur Kristján Jakobsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá Alvotech, en hann var að jafnaði með 9,3 milljónir á mánuði. Hann hækkar allnokkuð milli ára en í Tekjublaðinu í fyrra var hann með 3,5 milljónir á mánuði árið 2022. Gera má þó ráð fyrir að aðrir þættir en laun, t.a.m. kaupréttasamningar, spili þar hlutverk.

Emil Viðar Eyþórsson, fjármálastjóri Hampiðjunnar, var þá þriðji launahæsti fjármálastjórinn með að jafnaði 6,2 milljónir króna á mánuði, samanborið við 3,3 milljónir króna árið 2022.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.