Síminn gekk á síðasta ári frá kaupum á auglýsingafyrirtækinu Billboard, en fyrsta hálfa árið var félagið rekið sem sjálfstæð eining innan samstæðu Símans. Að sögn Maríu Bjarkar Einarsdóttur, forstjóra Símans, voru augljós tækifæri til samlegðar og því hafi verið ákveðið að samþætta rekstur Billboard við rekstur Símans. Samþættingin hafi gengið vel og nú séu allar auglýsingalausnir undir einum hatti, þó að söluteymin einblíni að vísu á ákveðnar vörur.
„Það sem Billboard kom með var í raun mjög þróuð og þroskuð nálgun á auglýsingasölu. Þótt Billboard væri minna fyrirtæki og einfaldara en Síminn þá var mikið virði að fá þetta félag inn. Það hefur haft mjög jákvæð áhrif á auglýsingasöluna í sjónvarpi, þessi þekking og reynsla sem kom með þeim og menning sem er mjög söludrifin og keppnismiðuð, en að sama skapi hafa þau einblínt á að veita góða þjónustu.“
„Núna erum við með Billboard, sem er leiðandi í umhverfismiðlum á höfuðborgarsvæðinu, og Sjónvarp Símans, sem er stærsta innlenda efnisveitan á Íslandi. Saman myndar þetta gríðarlega sterkt vöruframboð á auglýsingamarkaði og það hjálpar okkur mjög mikið í samtali við viðskiptavinina að geta boðið þeim svona mikinn sýnileika.“
Meðal nálgana sem Síminn hefur verið að þróa eru auglýsingakerfi sem bjóða upp á það sem kallast markmiðaðar auglýsingar (e. targeted ads) þar sem hægt er að beina auglýsingum að ákveðnum hópum, líkt og fyrirtæki á borð við Meta og Google notast við.
„Það eru fjölmargar breytur sem þú getur stýrt, til dæmis lýðfræðilegir þættir, og einnig hvað fólk er að horfa á sem gefur mjög góða vísbendingu um áhugasvið og annað. Við bjóðum auglýsendum upp á þetta núna og erum þar að koma til móts við þessa miklu samkeppni frá samfélagsmiðlunum, sem eru í dag að taka um helming af öllu auglýsingafé sem er varið á Íslandi,“ segir María Björk en nálgun þeirra gæti stækkað hópinn sem kýs að auglýsa í sjónvarpi.
Spurð um hvort brottfall enska boltans í haust muni hafa áhrif á tekjur fyrirtækisins segir María að í grunninn muni það helst hafa áhrif á auglýsingatekjur, sem hægt sé að verja að miklu leyti.
„Fyrir okkur eru þetta ekki stórar fjárhæðir í auglýsingatekjum í samanburði við verðið á sýningarréttinum. En þegar kemur að áskriftar tekjum er erfiðara að spá fyrir nákvæmlega hver áhrifin verða, en við getum sagt að það þarf að vera mikið brottfall til þess að tekjur lækki umfram lækkun á fjárfestingu og kostnaði hjá okkur,“ segir María en hún hefur áður sagt að enski boltinn sé einfaldlega orðinn of dýr.
„En það er óvissa og alltaf þegar þessi réttur fer á milli þá skapar það eitthvert rót líka. Það verða breytingar á vöruframboði og markaðssetningu, það verður hreyfing á hlutunum en við sjáum líka ákveðin tækifæri í því.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.