„Í byrjun sá ég alltaf fyrir mér að ég myndi vilja starfa í fjármálageiranum, þegar ég var í háskóla varð það eitthvað sem ég var að líta til og var mjög heppin að fá tækifæri þegar ég var ung til að vinna hjá Gamma, sem var þá ungt og vaxandi fjármálafyrirtæki,“ segir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, um upphaf ferilsins en hún hóf störf hjá Gamma árið 2013 sem sérfræðingur í sérhæfðum fjárfestingum.

„Þetta var rosalega dýnamískt umhverfi, mikið að gerast og mikill hraði, en á sama tíma var þarna líka fólk sem að treysti ungu fólki til að bera ábyrgð. Ég græddi mikið á því að fá tölu verða ábyrgð ung þegar ég fékk þá að taka við fasteignafélaginu sem Gamma hafði stofnað.“

María Björk var framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins, sem síðar varð Alma íbúðafélag, allt frá stofnun þess árið 2014 og þar til það var selt til einkafjárfesta árið 2021.

„Þetta var svona heildar krasskúrs í rekstri og fjármögnun fyrirtækja og maður þurfti að læra allt svolítið á hlaupum. Þetta var gríðarlega skemmtilegur tími og ég tek ofsalega mikið með mér, og kannski ekki síst því þetta var mjög langt frá því að vera verndað umhverfi.“

Hún hafi gengið stolt frá borði þegar því verkefni lauk en annar gluggi opnaðist meðan hún var í fæðingarorlofi með sitt seinna barn þegar henni bauðst viðtal fyrir fjármálastjórastöðu hjá Eimskipi.

„Þetta var einhvern veginn fullkominn tímapunktur, þannig að ég stökk á það tækifæri og þegar mér var boðið starfið þá var það mjög auðvelt val. Það spilaði mikið inn í að mér fannst Eimskip mjög áhugavert fyrirtæki út af því hversu alþjóðlegt það er og stórt, akkúrat öfugt við það sem ég var að koma úr. Síðan hef ég alltaf verið forvitin og elskað að læra og kynnast nýjum hlutum og þetta var alveg nýr og áhugaverður geiri,“ segir María Björk.

Hún starfaði sem fjármálastjóri Eimskips í þrjú ár og var sá tími verulega áhugaverður að hennar sögn. Um hafi að verið að ræða geira sem sé heldur íhaldssamur og rótgróinn að ákveðnu leyti en að sama skapi mikill hraði í honum.

María Björk tók síðan við sem forstjóri Símans síðasta sumar en Orri Hauksson hafði áður sinnt því starfi í rúman áratug. María segir það hafa verið forréttindi að taka við góðu búi þar sem skynsemi í rekstri hafi ætíð verið í hávegum höfð.

„Maður hefur farið inn í verkefni þar sem er nóg af augljósum tækifærum til að bæta afkomuna á einfaldan hátt með því að skera niður og hagræða. Því er síður fyrir að fara hér, tækifærin hafa frekar falist í að vaxa og sækja fram á nýjum sviðum á sama tíma og við styrkjum grunnstarfsemina enn frekar.“

Eftir söluna á Mílu hafi Síminn þannig farið í gegnum stefnumótun og tekið skref til ytri vaxtar en að sögn Maríu átti þó eftir að klára að marka stefnuna og leggja jarðveginn fyrir næsta kafla í sögu Símans. Meðal hennar fyrstu verka voru breytingar á skipuriti, fækkun stoðsviða og aukin áhersla á viðskiptahliðina en í kjölfarið var ráðist í stefnumótun að nýju.

„Við endurheimsóttum það sem hafði verið unnið síðast, tókum stóran hluta af fyrirtækinu fyrir í þeirri vinnu með einum eða öðrum hætti og náðum að skerpa sýnina. Kjarninn í þeirri stefnu er að við ætlum alls ekki að missa sjónar af þessum trausta og skynsama rekstri sem við erum svo lánsöm að vera með í höndunum, en að sama skapi ætlum við að halda áfram að finna leiðir til að vaxa,“ segir María Björk.

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.