Sumarið er tíminn til að ferðast, kanna nýja staði og safna minningum. En hvert á að fara þegar valmöguleikarnir eru endalausir? Við spurðum nokkra einstaklinga úr atvinnulífinu hvaða áfangastaðir standa upp úr hjá þeim – frá suðrænum ströndum til norrænnar fegurðar, frá hámenningu til afslappaðs strandlífs.
Hér deilir Katrín Amni með okkur sínum uppáhalds áfangastöðum.

Katrín Amni Friðriksdóttir – ferðalög sem innblástur
„Ég er mikill ferðalangur og hef alltaf verið – en á mjög erfitt með að velja einn stað, þar sem oftast er það nú þannig að staðurinn sem ég fór síðast á er sá sem fer efst á listann,“ segir Katrín Amni Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Kavita og annar eigandi vörumerkjanna ICEHERBS og Protis sem eru íslensk fæðubótarefni sem eru framleidd hér á landi.
Ítalía – óreiða með ákveðinni reglu
Ef hún þarf að velja einn stað, þá er það Ítalía. „Ég hef búið þar tvisvar sinnum eitt ár í senn og voru það einstakir tímar.“ Hún heillast af landinu þar sem „allt er í allskonar óreiðu, en samt er gríðarlega mikil sköpun og framleiðsla með hágæða afurðir“. Ítalir „halda fast í menningararf sinn, hvort sem það er tengt listum, afurðum náttúrunnar eða matargerð,“ og þessi lífsstíll dregur hana alltaf aftur.
Franska Rivíeran – fallegir bæir og afslappað andrúmsloft
Franska Rivíeran er einnig í miklu uppáhaldi. „Ég hef ferðast mjög oft þangað og dvalið þar allt frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur. Ég elska að keyra meðfram ströndinni og heimsækja alla fallegu bæina sem hefur hver sinn sjarma.“ Hún hefur einnig búið í ýmsum Mið-Evrópulöndum og finnst „menningin og sagan svo áþreifanleg, hvort sem það er byggingarstíllinn, matargerðin eða fjölskylduhefðir“.
Sri Lanka – hrá fegurð og einstök gestrisni
Nýjasta ferðalagið hennar var til Sri Lanka í janúar. „Maturinn, gestrisni innfæddra og náttúrufegurðin var engu lík. Menningin er gríðarlega ólík því sem við erum vön, eðlilega, en það var einhver orka sem ég heillaðist gríðarlega af.“
Ferðin var fjölbreytt: „Við dvöldum á gistiheimili, 5 stjörnu resorti og einnig brimbretta camp.“ Hún lítur á ferðalög sem lykilinn að víðsýni. „Mér finnst mikilvægt að sýna dætrum mínum heiminn og mismunandi menningu – það göfgar þær, sýnir þeim fjölbreytni og ýtir undir samkennd og umburðarlyndi.“

Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.