Nuno Alexandre Bentim Servo og Bento Costa Guerreiro eru einhverjir stórtækustu veitingamenn bæjarins en þeir eru stærstu eigendur sex þekktra veitingastaða í miðbæ Reykjavíkur. Umræddir veitingastaðir eru Apotek restaurant, Sushi Social, Tapas barinn, Fjallkonan, Sæta svínið og Tres locos. Auk þess eru þeir tveir af eigendum barsins Tipsý sem opnaður var í Hafnarstræti 1-3 í maí 2023. Raunar eru þeir með rekstur í allri húsalengjunni þar sem Fjallkonan og Sæta svínið eru einnig til húsa að Hafnarstræti 1-3. Þá eru þeir einnig meðal stærstu eigenda Djúsí Sushi, sem er systurveitingastaður Sushi Social, sem opnaði í Pósthús Mathöll fyrir um tveimur árum síðan.
Samanlagður hagnaður staðanna nam 93 milljónum árið 2023. Apotek restaurant hagnaðist um 82 milljónir, Sushi Social 21 milljón, Tapas barinn 3 milljónir og Djúsí Sushi 24 milljónir. Þrír staðir voru reknir með tapi. Tres Locos tapaði 25 milljónum og Sæta svínið og Tipsý töpuðu 6 milljónum. Loks var Fjallkonan rekin á núlli.
Hagnaðarhlutfall staðanna, þ.e. hlutfall hagnaðar af heildarveltu, segir þó öllu meiri sögu og gefur betri mynd af rekstrinum. Þannig nam hagnaðarhlutfallið 2,1% árið 2023. Þegar hver og einn staður er tekinn út fyrir sviga má sjá að hagnaðarhlutfallið er hæst hjá Djúsí Sushi, 11,4% og næst hæst hjá Apotek restaurant, 6,9%. Næst kemur Sushi Social með 3,3% og Tapas barinn svo með 0,6%.
Rennir þetta ágætis stoðum undir þá kenningu sem oft heyrist meðal veitingamanna að vart finnist meira krefjandi bransi hér á landi. Í því samhengi hefur verið bent á að fáar ef nokkrar atvinnugreinar státi af jafn háu launahlutfalli, þ.e. hlutfall launakostnaðar af heildarveltu.
Nærri helmingur tekna veitingastaðanna sex sem fyrr hefur verið minnst á, Apotek restaurant, Sushi Social, Tapas barinn, Fjallkonan, Sæta svínið og Tres locos, fór í laun og launatengd gjöld. Þannig var launahlutfall staðanna að meðaltali 47,6% árið 2023. Hæst var launahlutfallið hjá Tapas Barnum, 50,3%, en lægst hjá Apotek restaurant, 43%. Hjá Tres Locos var launahlutfallið 49,5%, 48,7% hjá Sæta svíninu, 46,6% hjá Fjallkonunni og 44,6% hjá Sushi Social.
Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.