Sumarið er tíminn til að ferðast, kanna nýja staði og safna minningum. En hvert á að fara þegar valmöguleikarnir eru endalausir? Við spurðum nokkra einstaklinga úr atvinnulífinu hvaða áfangastaðir standa upp úr hjá þeim – frá suðrænum ströndum til norrænnar fegurðar, frá hámenningu til afslappaðs strandlífs.
Hér deilir Steinarr Lár með okkur sínum uppáhalds stað á sumrin.
„Uppáhaldsáfangastaður fjölskyldu okkar er Baskaland. Baskaland er í suðvesturhluta Frakklands og norðurhluta Spánar. Baskar eiga sitt eigið tungumál og ríka sögu. Þeir börðust lengi fyrir sjálfstæði en þurftu á endanum að beygja sig undir stærri ríki, “ segir Steinarr Lár, forstjóri Bílaleigunnar Go ehf.
Steinarr og fjölskylda hans fara árlega til Baskalands, enda er þar allt sem þarf fyrir hina fullkomnu ferð. „Það sem dregur okkur til Baskalands á hverju ári er brimið, maturinn og menningin. Landsvæðið er ekki stórt en það hefur að geyma fjöll, strendur og borgir. Því er bæði hægt að njóta þar útivistar og henda sér svo í sparigallann og þar blandast fallegasta fólk Evrópu sem borðar matinn sinn úti meðan sólin tyllir sér á hafflötinn til vesturs.“

Hann nefnir sérstaklega Biarritz, „þar sem hassið er sagt forðum daga hafa flætt frá Afríku inn í Evrópu. Það má segja að Biarritz sé Seyðisfjörður Frakklands. Þar ráða listamenn menningunni án allrar tilgerðar. Tvær stórar strendur með kastala á milli sín gerir borgina að draumkenndum veruleika. “
San Sebastian er einnig eftirlætisstaður. „San Sebastian búar eru fremstir í baskneskri tapas menningu sem kallast Pintxo sem er matur á pinna. Það sem gerir borgina afar sérstaka er að þessir smáréttir fylla barborð á öllum veitingastöðum borgarinnar. Maður gengur um þröngar göngugötur miðbæjarins og við manni blasa hlaðborð hvert sem litið er.“
Í lok september fer þar einnig fram ein stærsta kvikmyndahátíð Spánar. „Þegar best lætur blandast saman blautir brimbrettamenn á leið úr sjónum og heimsfrægar kvikmyndaleikkonur í síðum kjólum á rauðum dregli. Það er neisti og kynorka í loftinu vitandi að þau munu aftur hittast yfir Pinxto seinna um kvöldið og dreypa á Rioja víni sem er ræktað í hæðunum fyrir ofan.
Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.