Bílaframleiðandinn GMC kynnti til leiks nýjan Hummer EV fyrir ekki margt löngu. Hægt er að fá hann bæði sem hefðbundinn jeppa eða pallbíl. Útlitið á Hummer hefur breyst umtalsvert bæði að innan og utan. Og mesta breytingin er að Hummer er nú orðinn rafbíll.

Skoðum hvernig Hummerinn lítur út árið 2025. Tvær týpur eru af nýju 2025 árgerðinni af bílnum. Annars vegar Hummer EV 2x og hins vegar kraftmeiri týpan Hummer EV 3x.
Hummer EV 2x er staðaltýpan og eru jeppinn og pallbíllinn svipaðir. EV 2x kemur með tveimur rafmótorum og uppgefin drægni á jeppanum er í kringum 506 km en 511 km á pallbílnum. Í raun munar aðeins fáeinum kílómetrum á þeim. Í þessari týpu eru rafmótorarnir að skila bæði jeppanum og pallbílnum 570 hestöflum. Kraftmeiri týpan EV 3x kemur með þremur mótorum.

Jeppinn er með uppgefna drægni í kringum 502 km á meðan uppgefin drægni hjá pallbílnum er í kringum 590 km. Í þessari týpu er jeppinn 830 hestöfl, en pallbíllinn er aðeins kraftmeiri eða 1.000 hestöfl. Svakalegur kraftur fyrir svona stóran trukk. EV 3x býður einnig upp á skemmtilegan búnað sem er kallaður WTF eða Watts To Freedom, sem breytir bílnum í kappakstursbíl en hann er aðeins 3,3 sekúndur frá 0-100 km/klst. þegar búnaðurinn er notaður.
Getur dregið 3,4 tonn
Báðir bílarnir koma með fjórhjóladrifi, en hægt er að bæta við aukabúnaði sérstaklega fyrir torfærur. Hægt er að sérsníða bifreiðina með skemmtilegu litavali, en hægt er að velja sjö liti og þeir eru hvítur, svartur, appelsínugulur, ljósgrár, grár, dökkblár og brons.
Meðal staðalbúnaður í öllum Hummer útfærslum eru ökumanns aðstoðarkerfi, sem kallast á ensku Super Cruise, undirvagnsmyndavélar, 35 tommu dekk og „infinity“ þak, sem hægt er að fjarlægja að hluta. Hann kemur með 13,4 tommu margmiðlunarskjá sem býður upp á ýmsa skemmtilega eiginleika. Í boði eru bæði Apple CarPlay og Android Auto. Nýr Hummer kemur með 800 volta hraðhleðslu eða allt að 300 kW í jeppanum en 350 kW í pallbílnum. Bíllinn er rúmgóður og það er mikið pláss fyrir alla farþega. Hann má draga að hámarki 3,4 tonn.

Torfæru skrímsli
Hummer hefur alltaf verið þekktur fyrir magnaða torfærueiginleika. Hægt er að fá sérstakan búnað í hinum nýja Hummer sem gerir bílinn að enn meira torfæru skrímsli. Fyrsti eiginleikinn er fjórhjólastýring sem kallast krabbastilling, eða CrabWalk á ensku, sem þýðir að hann getur beygt á öllum hjólum og keyrt á ská sem getur auðveldað akstur í grófu landslagi.
Annar eiginleikinn kallast UltraVision, en þá eru 17 myndavélar í jeppanum og 18 í pallbílnum. Þessar myndavélar eru staðsettar víða um bílinn ásamt undirvagnsmyndavélum sem hjálpa til við að sjá stefnu hjóla og auðvelda þannig akstur í erfiðu landslagi. Svo eru stálplötur sem vernda rafhlöðuna svo hún skemmist ekki í torfærunum.

© epa (epa)
Borgaraleg útfærsla af herbíl
Hummer kom fyrst á markað árið 1992 þegar bílaframleiðandinn AM General hófst handa við að framleiða bílinn. Hummer var í raun borgaralega útfærslan af ameríska herbílnum M998 Humvee, en týpan hét Hummer H1.
Humvee fékk nafnið sitt frá skammstöfuninni HMMWV sem þýðir á ensku High Mobility Multipurpose Wheeled Vehicle. Hollywood-leikarinn og fyrrum ríkisstjórinn Arnold Schwarzenegger setti pressu á AM General að framleiða borgaralegan Humvee. Austurríkismanninum fannst þeir svo flottir að hann langaði að keyra slíkan bíl.
GMC tók við keflinu
General Motors, betur þekktir sem GM, keypti vörumerkið af AM General árið 1998. Eftir að GM tóku við þá héldu þeir áfram að framleiða Hummer H1. Þeir kynntu til leiks tvær nýjar týpur sem nefndust Hummer H2 og H3, en bílarnir áttu að höfða meira til hefðbundins markhóps. Árið 2009, stuttu eftir efnahagshrunið, ákvað GM að hætta framleiðslu á Hummer. Salan á bílnum gekk ekki nógu vel og hrunið hafði einnig áhrif.
Kínverskt fyrirtæki ætlaði að kaupa vörumerkið árið 2010, en kaupin gengu ekki upp. Á þeim tíma leit út eins og Hummer myndi aldrei koma aftur á markað. Hins vegar tók GMC við keflinu og árið 2020 kynntu þeir nýjan Hummer til leiks. Síðan þá hefur Hummerinn verið rafmagnaður og fengið nútímalegra útlit.
Umfjöllunin birtist í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur lesið greinin í heild hér.