Elko er langstærsta raftækjaverslun landsins en verslanir fyrirtækisins, sem er dótturfélag Festi, veltu tæplega 18,3 milljörðum í fyrra, sem er aukning um 1,3 milljarða frá árinu 2022. Hagnaður ársins nam 871 milljón, sem er örlítið minna en árin 2021 og 2022 þegar hagnaður nam tæpum milljarði á ári.

Heimilistæki veltu þá 4,8 milljörðum árið 2023 en tekjur fyrirtækisins hafa dregist saman um 450 milljónir frá árinu 2022 og um 900 milljónir sé horft aftur til ársins 2021. Hagnaður hefur sömuleiðis dregist saman, nam 117 milljónum í fyrra en 274 milljónum árið 2022 og 481 milljón árið 2021.

Heimilistæki ehf. er þó einnig móðurfélag annarra félaga, þar á meðal Tölvulistans og Raflands auk Kúnígúnd og Byggt og búið, og er tillit tekið til hlutdeildar í afkomu dótturfélaga í endanlegri afkomu móðurfélagsins.

Næst kemur Ormsson sem velti 4,6 milljörðum árið 2023 en tekjur fyrirtækisins hafa aukist um 16% frá árinu 2021. Þó að tekjur fyrirtækisins hafi aukist hefur hagnaður dregist örlítið saman og nam 121 milljón í fyrra.

Átta stærstu raftækjaverslanir landsins veltu samanlagt tæplega 33 milljörðum króna árið 2023 og var hagnaður af rekstrinum hjá sex þeirra.

Nánar er fjallað um málið í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.