Tvö fyrirtæki bera höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki í vélsmiðjugeiranum. Það eru Héðinn og HD en samanlögð velta félaganna nam ríflega 13 milljörðum í fyrra. Velta Héðins nam rúmlega 7 milljörðum meðan HD velti tæplega 6 milljörðum. Þriðja stærsta félagið, Stjörnublikk, var með rúmlega 2,5 milljarða í tekjur. Ein önnur vélsmiðja, Ísloft blikk- og stálsmiðja, velti yfir tveimur milljörðum á síðasta ári.
Héðinn, stærsta vélsmiðja landsins, hefur aukið hagnað sinn verulega undanfarin tvö ár. Félagið hagnaðist um 741 milljón í fyrra, 292 milljónir árið 2022 og 97 milljónir árið 2021. Hagnaður félagsins hefur því nærri áttfaldast á milli áranna 2021 og 2023.
Eðvarð Ingi Björgvinsson, framkvæmdastjóri Héðins, segir félagið undanfarið hafa lagt áherslu á kjarnastarfsemi sína og það hafi skilað góðum árangri. „Frábær hópur starfsmanna, sem hefur fjölgað um 29% á síðustu 12 mánuðum ásamt traustum viðskiptasamböndum er lykillinn á bak við þennan árangur.“
Hann segir verkefnastöðu félagsins góða og vaxtarmöguleikar til staðar á öllum sviðum þess. Stefnan sé því sett á góða rekstrarniðurstöðu á yfirstandandi ári og um komandi ár. Hagsveiflan hafi alltaf haft einhver áhrif á starfsemi félagsins. „En við höfum góða dreifingu á tekjum í sjávarútvegi, stóriðju og orkuiðnaði sem hjálpar til við að draga úr áhrifunum.“
Nánar er fjallað um vélsmiðjur í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.