Rútufyrirtækin virðast flest hver hafa náð vopnum sínum á ný í fyrra en eins og gefur að skilja töpuðu félögin flest verulegum fjárhæðum í heimsfaraldrinum. Til marks um rekstrarbatann voru aðeins tvö af tíu félögum listans rekin með tapi á síðasta ári en árið áður skilaði helmingur þeirra tapi. Tvö stærstu félög listans, Hópbílar og Almenningsvagnar Kynnisferða, voru þau einu sem skiluðu tapi á síðasta ári.

Þegar horft er til veltu voru Hópbílar stærsta rútufyrirtæki landsins í fyrra með 3,5 milljarða veltu og jókst veltan um rúmlega 400 milljónir frá fyrra ári. Næst á eftir komu Almenningsvagnar Kynnisferða með 2,7 milljarða veltu á síðasta ári.

Þess ber þó að geta að Kynnisferðir, sem hefur verið stærsta rútufyrirtæki landsins undanfarin ár, hafa síðustu ár haft eitt móðurfélag yfir allri starfsemi félagsins. Rútuaksturinn hefur svo verið rekinn í tveimur systurfélögum – Almenningsvögnum Kynnisferða og Hópbifreiðum Kynnisferða. Aftur á móti var síðarnefnda félaginu slitið í lok síðasta árs og því enginn ársreikningur fyrir það ár aðgengilegur í fyrirtækjaskrá. Sumarið 2022 fékk samstæða fyrirtækjanna Reykjavik Excursions/Kynnisferða, Icelandic Mountain Guides, Iceland Rovers, Dive.is auk starfsemi Flybus nafnið Icelandia. Má því ætla að slit fyrrnefnds félags séu hluti af skipulagsbreytingum tengdum sameiningunni.

Þriðja stærsta félagið var svo Guðmundur Jónasson með 2,5 milljarða veltu. Veltan jókst um tæplega 700 milljónir á milli ára. Félagið hefur verið rekið með alls 284 milljóna hagnaði undanfarin þrjú ár.

Nánar er fjallað um málið í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.