Björgólfur Thor Björgólfsson segist hættur í símabransanum eftir að hafa fjárfest í alþjóðlegum fjarskiptafyrirtækjum í meira en tvo áratugi.
„Ég er búinn að vera í þessum geira í meira en 20 ár. Símageirinn er búinn að vera, að mínu mati,“ segir hann í ítarlegu viðtali í nýju tímariti Frjálsrar verslunar.
Björgólfur segir ástæðuna fyrir því að hann hafi ekki lagt allt í sölurnar að tryggja sér WOM í Síle – eitt stærsta fjarskiptafyrirtæki Síle sem sótti um greiðslustöðvun í apríl 2024 - aftur vera að hann sé orðinn mjög neikvæður á horfur í símageiranum. Hann segir marga kollega sína í símaheiminum vera á sömu skoðun.
„Öll fjármögnunarþörfin og allar framkvæmdir lenda á símafyrirtækjunum. Það fer mikil vinna í að grafa upp götur, byggja staura og annað. Ríkið stjórnar þessari uppbyggingu með mjög miklum kvöðum oft á tíðum,“ segir Björgólfur.
„Allur ágóðinn fer hins vegar núna til Kaliforníu. Um 75% af traffíkinni í gagnaferlinu fer til Meta, Google og TikTok. Þau taka allar auglýsingatekjurnar. Símafyrirtækin og ríkið fá ekkert af því. Þetta hangir allt í Kaliforníu í gegnum Írland. Þess vegna verða til þessi trilljón dollara fyrirtæki – þau hafa enga fjárfestingarþörf en fá allar tekjurnar, auk þess sem þau búa við miklu minni kvaðir frá ríkinu.“
Peningavélar á meðan fólk talaði í símann
Hann segist hafa orðið enn svartsýnni í garð hefðbundna fjarskiptageirans fyrir einu og hálfu ári síðan. Björgólfur býr í Englandi og á hús uppi í sveit sem er ekki ljósleiðaratengt. Það fóru að renna á hann tvær grímur þegar hann setti upp Starlink og sá strax hversu vel það virkaði.
„Þannig að ég er hættur í símabransanum. Ég hef bara ekki mikla trú á honum eins og er. Það má segja að þetta hafi verið peningavélar á meðan að fólk talaði í símann. Fyrir nokkrum árum fór hins vegar allt að snúast um gagnamagn. Þá þurfti að búa til stærra kerfi sem er 5G. Svo kemur bara í ljós að símafyrirtækin þurfa að borga fyrir alla uppbygginguna en digital-risaeðlurnar éta upp allan ávinninginn.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.