Íslenskir hlutabréfasjóðir sem opnir eru almennum fjárfestum skiluðu ávöxtun á bilinu 10 til 23 prósent á síðasta ári, að undanskildum sjóðnum Akta Stokkur, í rekstri Akta sjóða, sem skilaði neikvæðri ávöxtun upp á 21,74%.

Þetta er mikill viðsnúningur frá árinu 2023 þegar hlutabréfasjóðir áttu í miklum erfiðleikum með að skila jákvæðri ávöxtun.

Þegar horft er til blandaðra sjóða má sjá að þrír sjóðir á vegum Landsbréfa voru með bestu ávöxtunina á síðasta ári. Þar stendur sjóðurinn Landsbréf – Eignadreifing sjálfbær fremstur í flokki með 15,2% ávöxtun.

Eins og nafnið gefur til kynna leggur sjóðurinn áherslu á „eflingu umhverfislegra og/eða félagslegra þátta ásamt því að tilskilið er að góðum stjórnarháttum sé fylgt meðal félaga sem fjárfest í“ eins og segir á vefsíðu Landsbréfa um sjóðinn.

Þar á eftir koma Landsbréf – Einkabréf E, sem fjárfestir að mestu í erlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum og er ætlaður viðskiptavinum Einkabankaþjónustu Landsbankans, með 14,6% ávöxtun, og Landsbréf – Global Multi Asset Fund, sem fjárfestir í erlendum fjármálagerningum, með 13,5% ávöxtun.

Aðeins einn blandaður sjóður skilaði neikvæðri ávöxtun á síðasta ári, en það er Akta Alviðra. Ávöxtun blandaðra sjóða var með svipuðum hætti á árinu 2023, þegar allir nema einn sjóður, Stefnir Samval, skiluðu jákvæðri ávöxtun.

Þegar litið er til síðastliðinna fimm ára, frá 2020-2024, er nafnávöxtun blandaðra sjóða á ársgrundvelli að meðaltali 6,7%.

Þar var IS Einkasafn E (fl. B), á vegum Íslandssjóða, með bestu nafnávöxtun á ársgrundvelli á tímabilinu upp á 11,65%. Þar á eftir kemur annar sjóður á vegum Íslandssjóða, IS Einkasafn E (fl. A), með 10,87% ávöxtun.

Stærsti blandaði sjóðurinn er Landsbréf Einkabréf B, með 25,2 milljarða króna eignir í stýringu. Þar á eftir kemur Landsbréf Einkabréf C með 23,2 milljarða í stýringu og Landsbréf Einkabréf D með 14,7 milljarða í stýringu, að því er kemur fram á Keldunni.

Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.