Sjóðurinn SIV Hlutabréf, sem er í rekstri SIV eignastýringar, var með hæstu ávöxtun allra hlutabréfasjóða á árinu 2024. Skilaði hann sjóðsfélögum sínum tæplega 24 prósenta ávöxtun.
Stærstu eignir sjóðsins, sem er stýrt af þeim Jóni Rúnari Ingimarssyni og Þorkeli Magnússyni, í desember í fyrra voru í Alvotech, Arion banka og Festi. Var fjárfesting SIV Hlutabréfa í þeim félögum um 37 prósent af heildareignum hans á þeim tíma.
SIV eignastýring var stofnað árið 2022 og hóf starfsemi í júlí 2023. Samþykkt var á aðalfundi SIV eignastýringar og ÍV sjóða 31. mars síðastliðinn að sameina starfsemi félaganna undir merkjum Íslenskra verðbréfa hf. Með samrunanum verður til eigna- og sjóðastýringarfélag með um 200 milljarða króna í stýringu og fimmtán manna teymi.
Aðrir hlutabréfasjóðir sem opnir eru almennum fjárfestum voru með ávöxtun á bilinu 10 til 23 prósent á síðasta ári, að undanskildum sjóðnum Akta Stokkur, í rekstri Akta sjóða, sem skilaði neikvæðri ávöxtun upp á 21,74%.
Þetta er mikill viðsnúningur frá árinu 2023 þegar hlutabréfasjóðir áttu í miklum erfiðleikum með að skila jákvæðri ávöxtun. Til marks um það var sá hlutabréfasjóður sem skilaði mestri ávöxtun árið 2023 arðgreiðslusjóður Stefnis, með rúmlega þriggja prósenta ávöxtun. Þá voru einungis sjö hlutabréfasjóðir í heildina, í flokki íslenskra hlutabréfa, sem skiluðu jákvæðri ávöxtun á árinu 2023, þar af fimm þeirra undir 1% og allir undir ársverðbólgu.
Árið 2022 reyndist enn erfiðara fyrir hlutabréfasjóði þar sem enginn þeirra skilaði jákvæðri ávöxtun. Var hún að meðaltali neikvæð um 12,23%. Árin áður, 2021 og 2020, voru aftur á móti gjöful á hlutabréfamarkaði, þar sem sjóðirnir skiluðu að meðaltali 45% ávöxtun árið 2021 og 28% árið áður.
Flestir hlutabréfasjóðir veðja á Alvotech
Á eftir SIV Hlutabréfum kemur Hekla, sjóður á vegum Landsbréfa, sem skilaði 23,24% ávöxtun á síðasta ári. Stærstu eignir sjóðsins í desember í fyrra voru í Alvotech og Kviku banka og var fjárfesting Heklu í þeim félögum um 22 prósent af heildareignum hans á þeim tíma.
Ólíkt mörgum öðrum sjóðum opnum almennum fjárfestum hefur Hekla heimild til stöðutöku í afleiðum. Þannig hefur Hekla heimild til að fjárfesta í afleiðum sem nemur 100% af eignum sjóðsins. Hins vegar fjárfestir sjóðurinn í afleiðum sem nemur 42,65% af eignum þess, samkvæmt nýjustu upplýsingum. Vísitölu- og kauphallarsjóðurinn LEQ UCITS ETF, einnig í rekstri Landsbréfa, skilaði 19,80% ávöxtun á síðasta ári. Sjóðurinn fjárfestir eingöngu í þeim hlutabréfum sem mynda íslensku hlutabréfavísitöluna OMCI15CAP. Vísitalan samanstendur af þeim hlutabréfum skráðum í kauphöllinni Nasdaq Iceland sem hafa mestan seljanleika.
Á eftir sjóðunum þremur kemur IS Úrvalsvísitölusjóður, sem er á vegum Íslandssjóða og fylgir Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands með vægisþaki (OMXI15 Cap ISK) að teknu tilliti til kostnaðar. Sjóðurinn var rekinn með 19,72% ávöxtun í fyrra.
Skammt á eftir kemur Kvika – innlend hlutabréf, sem er þriðji stærsti hlutabréfasjóður landsins með um 12,4 milljarða eignir í stýringu, með 19 prósent ávöxtun. Nærri þriðjungur eigna sjóðsins í desember í fyrra var í Alvotech og rúmlega 10% í Amaroq. Var fjárfesting sjóðsins í þessum tveimur félögum þ.a.l. um 41 prósent af heildareignum hans á þeim tíma.
Stærsti hlutabréfasjóðurinn skilaði 10,5% ávöxtun Sjóðurinn Stefnir – innlend hlutabréf, sem er stærsti hlutabréfasjóður landsins með um 23 milljarða eignir í stýringu, skilaði sjóðsfélögum 10,46 prósenta ávöxtun í fyrra. Stærstu eignir sjóðsins í desember í fyrra voru í Arion banka og JBT Marel og var fjárfesting sjóðsins í þeim félögum um 10 prósent af heildareignum hans á þeim tíma.
Landsbréf – Úrvalsbréf, næststærsti hlutabréfasjóður landsins með um 15 milljarða eignir í stýringu, skilaði 14,52 prósenta ávöxtun í fyrra. Líkt og hjá mörgum öðrum hlutabréfasjóðum var stærsta eign sjóðsins í desember í fyrra í Alvotech, eða sem nemur 16,7 prósentum af heildareignum hans á þeim tíma.
Hægt er að kaupa eintak af tímariti Frjálsrar verslunar hér. Tímaritinu verður dreift til áskrifenda í fyrramálið.