Þar sem stór hluti neyslu almennings endar hjá stórmörkuðum og matvöruverslunum er geirinn einn sá stærsti hér á landi. Þetta er stærsti geirinn, mælt í tekjum, af þeim rúmlega þrjátíu geirum sem eru sérstaklega til umfjöllunar í 500 stærstu að þessu sinni. Samtals námu tekjur stærstu stórmarkaðanna 298 milljörðum króna á síðasta ári. Sá geiri sem næst kemst veltu stórmarkaðanna er flugþjónusta með 282 milljarða veltu í fyrra.

Þegar horft er til hagnaðarhlutfalls eru fáir geirar sem teknir eru til umfjöllunar með minni hagnað sem hlutfall af tekjum en stórmarkaðir og matvöruverslanir. Lágt hagnaðarhlutfall þarf ekki að koma á óvart en þessi markaður hefur lengi einkennst af mikilli verðsamkeppni og lítilli framlegð enda tiltölulega auðvelt að komast inn á þennan markað. Þetta er einnig sá geiri þar sem hvað minnstu sveiflur eru í framlegð.

Hagar verslanir bera sem fyrr höfuð og herðar yfir aðra stórmarkaði sé miðað við veltu en velta Haga verslana nam 114 milljörðum króna í fyrra eða 38% af níu stærstu fyrirtækjunum. Krónan kom þar á eftir með rúmlega 63 milljarða veltu og svo Kaupfélag Skagfirðinga með tæplega 53 milljarða. Þess ber þó að geta að inni í þeirri tölu eru öll dótturfélög kaupfélagsins og þar með talið útgerð Fisk Seafood sem er stór uppspretta tekna. Í næsta sæti kom Samkaup með rúmlega 42 milljarða veltu og síðan Costco með tæplega 23 milljarða. Nokkrar vikur eru síðan fyrirhugaður samruni Samkaupa og tiltekinna félaga í samstæðu Skeljar fjárfestingarfélags féll upp fyrir.

Nánar er fjallað um málið í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.