Nuno Alexandre Bentim Servo og Bento Costa Guerreiro eru einhverjir stórtækustu veitingamenn bæjarins en þeir eru stærstu eigendur sex þekktra veitingastaða í miðbæ Reykjavíkur. Umræddir veitingastaðir eru Apotek restaurant, Sushi Social, Tapas barinn, Fjallkonan, Sæta svínið og Tres locos. 

Auk þess eru þeir tveir af eigendum barsins Tipsý sem opnaður var í Hafnarstræti 1-3 í maí 2023. Raunar eru þeir með rekstur í allri húsalengjunni þar sem Fjallkonan og Sæta svínið eru einnig til húsa að Hafnarstræti 1-3. Þá eru þeir einnig meðal stærstu eigenda Djúsí Sushi, sem er systurveitingastaður Sushi Social, sem opnaði í Pósthús Mathöll fyrir um tveimur árum síðan.

Staðirnir sex sem nefndir eru hér að ofan veltu alls 4,1 milljarði króna árið 2023 en til samanburðar nam heildarvelta þeirra tæplega 4 milljörðum árið 2022. Samanlagður hagnaður staðanna nam svo 75 milljónum árið 2023 og lækkaði um 40 milljónir frá fyrra ári.

Samanlögð velta allra fyrrgreindra veitingastaða og bars nam tæplega 4,5 milljörðum króna árið 2023. Líkt og undanfarin ár var Apotek restaurant langtekjuhæsti veitingastaðurinn sem er í eigu þeirra félaga með hátt í 1,2 milljarða króna veltu. Næst kom Fjallkonan með 695 milljóna veltu, svo Sushi Social með 628 milljónir, Sæta svínið velti 598 milljónum og Tapas barinn 511 milljónum. Tres locos velti 465 milljóna króna, Djúsí Sushi 210 milljónum og loks Tipsý 188 milljónum.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Tapas barinn er aldursforseti veitingaveldis Nuno og Bento en veitingastaðurinn var stofnaður um síðustu aldamót.

Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.