Stærstu tannlæknastofur landsins juku allflestar tekjur sínar talsvert á milli áranna 2023 og 2022. Í fyrra námu tekjur tíu stærstu tannlæknastofa landsins rúmum 4,5 milljörðum króna og jukust um 18% á milli ára, úr 3,8 milljörðum árið 2022.
Mestur var vöxturinn hjá Hlýju ehf. og Krýnu ehf., eða 36% og 34%. Tekjur Tannlæknastofu EG ehf. drógust saman um fimmtung á milli ára og tekjur Tannbjargar ehf. jukust um eina milljón króna á milli ára.
Tannlæknastofan Hlýja stóð að baki um 34% tekna tíu stærstu tannlæknastofanna, var stofan með rúmlega 1,5 milljarða króna í tekjur í fyrra.
Á eftir Hlýju er Tannlæknastofan Valhöll með rúmlega 620 milljóna króna veltu. Valhöll tapaði hins vegar fjórtán milljónum króna í fyrra, en stofan skilaði síðast hagnaði árið 2019, sem nam þá tæpum tveimur milljónum króna.
Krýna velti tæpum hálfum milljarði króna í fyrra og jukust tekjur tannlæknastofunnar um þriðjung á milli ára. Stofan hagnaðist um fimm milljónir króna í fyrra samanborið við fjögurra milljóna króna tap árið áður.
Nánar er fjallað um tannlæknastofur í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.