Novator Capital, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, setti á fót sérhæfða yfirtökufélagið Aurora Acquisition á fyrri hluta árs 2021 og lauk nærri 280 milljóna dollara fjármögnun.

Í maí 2021 tilkynntu Aurora, sem Björgólfur leiddi, og Better Mortgage, bandarískt fjártæknifélag á íbúðalánamarkaði, að félögin myndu renna saman og þannig færi síðarnefnda félagið á hlutabréfamarkað.

Better komst í heimsfréttirnar í árslok 2021 þegar Vishal Garg, forstjóri félagsins, sagði upp 900 af þá um tíu þúsund starfsmönnum Better á Zoom fundi, sem sjá má brot úr hér.

Hópuppsögnin varð að eftirminnilegu atriði í lokaþáttaröð sjónvarpsþáttanna Succession sem komu út á árunum 2018-2023. Garg og Greg Hirsch, ein aðalpersónan í þáttunum, töluðu báðir um að hafa grátið í síðasta skiptið sem þeir sögðu upp hópi starfsmanna.

Björgólfur lýsir Garg sem öflugum frumkvöðli með frábærar hugmyndir um tæknilausnir, en hann sé kannski ekki sá besti þegar kemur að mannlegum samskiptum.

Hann segir marga þó gleyma því hvað fyrirtæki þurftu að reiða sig mikið á fjarfundi í faraldrinum og að mörg af stærstu fyrirtækjum heims hafi framkvæmt hópuppsagnir með sambærilegum hætti.

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Björgólf í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Þar er fjallað nánar um fjárfestingu Björgólfs í Better. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér en áskrifendur geta nálgast efni úr því hér.