Velta tíu stærstu veitingafyrirtækja landsins nam 28 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 8% milli ára. Þrátt fyrir það dróst hagnaður saman hjá sjö af tíu stærstu fyrirtækjunum um samtals 289 milljónir króna milli ára.
Pizza Pizza ehf, sem á og rekur Domino’s á Íslandi, er stærsta veitingafyrirtæki landsins með veltu upp á tæplega 6,6 milljarða króna. Hagnaður félagsins dróst lítillega saman á milli ára.
Magnús Hafliðason, forstjóri Domino’s, segir síðustu ár hafa einkennst af töluverðum breytingum á neysluhegðun, fyrst vegna Covid og síðan vegna áhrifa hækkandi vaxta og verðbólgu á heimilin.
„Heimilin eru greinilega að sækja meira í tilboð sem hafa dýpri afslætti og samsetning pantana hefur breyst. Þá er gott að geta boðið fjölbreytt tilboð og þannig boðið upp á kosti sem henta öllum, hvort sem fólk er að leita að mesta virðinu eða auknu úrvali og þjónustu.“
Hann segir helstu áskoranir í veitingarekstri oftar en ekki þær sömu, launa- og hráefniskostnaður.
„Það er jákvætt að vera með langtíma kjarasamninga þó svo að við hefðum viljað sjá meiri áherslur á sérstöðu veitingageirans í þeim samningum, en launahlutfall í okkar rekstri hefur rokið upp á síðustu 10-15 árum.
Verð á veitingum hefur ekki fylgt verðlagi og líklega hefur aldrei verið ódýrara að kaupa Domino’s pizzur heldur en í dag sé horft á okkar verð og borið saman við þróun launa. Eftir miklar hækkanir frá flestum birgjum síðustu ár er meiri ró yfir stöðunni núna og maður skynjar að það er sameiginlegt markmið að halda verðhækkunum í lágmarki.“
Nánar er fjallað um veitingastaði í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem kom út í gær. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.