Líkt og undanfarin ár er ENNEMM stærsta auglýsingastofa landsins. Í fyrra nam velta stofunnar ríflega 2 milljörðum króna, sem þó er 9 prósenta samdráttur frá fyrra ári.
Hvíta húsið er næststærsta auglýsingastofan með veltu upp á 1.670 milljónir árið 2023, sem er nokkur samdráttur frá fyrra ári þegar veltan nam 1.810 milljónum.
Í þriðja sæti er AtonJL með 962 milljóna króna veltu, sem er svipað og árið 2022 þegar veltan nam 993 milljónum.
Þess ber að geta að AtonJL sinnir einnig almannatengslum og gefur ekki upp skiptingu á tekjum í ársreikningi.
Í sjötta sæti listans yfir stærð auglýsingastofa er Datera með 700 milljóna króna veltu á árinu 2023. Velta félagsins jókst gríðarlega frá fyrra ári eða um 221%.
Datera er stafrænt birtingar- og ráðgjafarfyrirtæki, sem sérhæfir sig í gagnadrifnum og sjálfvirkum auglýsingaherferðum.
Nánar er fjallað um auglýsingastofur í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.