Eitt stærsta fjárfestingarverkefni Björgólfs Thors Björgólfssonar í dag er tæknibrellufyrirtækið DNEG Group. Fjárfestingafélag hans Novator Capital eignaðist 15% hlut í DNEG fyrir 250 milljónir dollara, eða yfir 30 milljarða króna, í ársbyrjun 2022. Samhliða tók Björgólfur sæti í stjórn fyrirtækisins.
Björgólfur segir að DNEG vinni nú að því, í gegnum dótturfyrirtækið Brahma, sem var formlega stofnað árið 2024, að gera meira úr hugviti félagsins með gervigreind. Tæknibrellubransinn sé mjög vinnuaflsfrekur og það þurfi ákveðna týpu af listrænum forritum til að starfa í honum.
„Nú er gervigreindin að flýta fyrir þessari vinnu. Við erum að reyna að vera langfremstir í því að búa til hugbúnað fyrir myndbands-gervigreindarlíkan. Það eru margir að reyna að búa til sjónræn gervigreindarlíkön sem býr til myndir – fólk þekkir það kannski best af ChatGPT. Enn er enginn búinn að koma upp almennilegri myndbands-útgáfu. Við erum að reyna að vinna sem hraðast í þessum efnum og erum að tala við tæknifyrirtæki um aðstoða okkur,“ segir Björgólfur.
„DNEG býr að því að það eiga svo rosalegt magn af efni. Þeir eru búnir að forrita svo mikið, t.d. borgirnar sem falla saman í kvikmyndinni Inception. DNEG á allt þetta, ekki stúdíóin. Þau eiga karakterana og aðalhetjurnar en ekki umhverfin. Þetta er gagnagrunnur sem við getum byggt ofan á.“
Brahma tilkynnti í febrúar um kaup á Metaphysic sem sérhæfir sig í þróun á gervigreindartækni á myndefni (e. content creation). Metaphysic hefur þróað hugbúnað sem var nýttur til að yngja og gera Tom Hanks og Robin Wright eldri í kvikmyndinni Here sem kom út í fyrrra, samkvæmt umfjöllun Variety.
Brahma var metið á 1,43 milljarða dala, eða ríflega 188 milljarða króna, í viðskiptunum. Samkomulagið fól í sér að hluthafar Metaphysic myndu eignast hlut í sameinuðu félagi.
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.