Fram er komið frumvarp um að fella vindorku undir rammaáætlun.  Markmiðið er að flýta uppbyggingu vindorku.  Á sama tíma hafa stjórnvöld sett loftslagsmarkmið sem kalla á græna orku, m.a. til orkuskipta.  Staðan í orkumálum er hins vegar sú að sárlega vantar græna raforku sem sýnir sig í því að skerða þarf raforku til fjarvarmaveitna (t.d. Vestmannaeyja), fiskimjölsverksmiðja, gagnavera og stóriðjunnar, sem þurfa að brenna olíu eða draga rekstur saman.

Gróflega má áætla að kostnaður þjóðarbúsins í ár vegna skorts á grænni orku sé um 12-17 milljarðar króna, sem jafngildir aflaverðmæti um 14 togara, þ.e. segja má að íslendingar hafi misst 14 togara úr landi í ár.

Langan tíma tekur að fá leyfi fyrir grænni orku

Rammaáætlun, lög nr. 48 frá 2011, er leyfisveitingaferli sem svarar tveimur spurningum, 1) á að nota ákveðið land fyrir græna orku eða 2) friða það.  Meðaltími verkefna sem fengu afgreiðslu í þriðju rammaáætlun (R3) sem afgreidd var árið 2022 var 16 ár og dæmi um verkefni hafi tekið 23 ár. Það tók 15 ár að fá afgreiðslu rammaáætlunar á Hvammsvirkjun og því til viðbótar hefur sveitarstjórn heimild til að fresta skipulagi í 13 ár. Leyfisveitingaferli Hvammsvirkjunar gæti því í versta falli tekið 33 ár.

Nú stendur til að fella vindorku undir rammaáætlun.  Nokkrir galla eru á frumvarpinu og betur má ef duga skal því frumvarpið gengur gegn þeim markmiðum sem sett voru, þ.e. að flýta uppbyggingu.  Áætla má að verkefni í vindorku í rammaáætlun geti tekið allt að 38 ár í vinnslu þar til orka fer að streyma frá verkefninu sem byggir á raunverulegum dæmum. Rammaáætlun getur tekið 16-23 ár, aðalskipulagsbreyting getur tekið 7 ár, mat á umhverfisáhrifum (MÁU) 3 ár, umsókn um virkjanaleyfi og önnur leyfi 2 ár og bygging vindlundar um 3 ár.  Samtals eru þetta 31-38 ár.

Einhverjir kunna að spyrja sig hvor ekki sé hægt að vinna aðalskipulag samhliða rammaáætlun og spara tíma, eða MÁU.  Svarið er að vissulega er það hægt en ólíklegt því ekki er ráðlegt að eyða miklum fjármunum í þá vinnu fyrr en spurningunni um hvort friða eigi landið eða ekki er svarað svo fjármunum sé ekki sóað til einskis.

„Flýtimeðferð“ vindorku

Í frumvarpinu er boði uppá flýtimeðferð sem þá fer beint til ráðherra.  Þó tími flýtimeðferðar komi ekki fram þá má gera ráð fyrir að ferlið taki a.m.k. 2 ár því verkefnastjórn þarf að meta hæfi verkefnanna, þá er verkefnið sent til ráðherra sem sendir það til umsagnar ýmissa aðila

Flýtimeðferð vindorku, þ.e. frá umsókn í rammaáætlun til loka byggingar gæti verið 17 ár, 2 ár í rammaáætlun, 7 ár fyrir aðalskipulagsbreytingu (raunverulegt dæmi), 3 ár í mati á umhverfisáhrifum (raunverulegt dæmi), 2 ár í umsókn um virkjanaleyfi og önnur leyfi (raunverulegt dæmi), og að síðustu 3 ár í byggingu, samtals 17 ár.

Mögulega verður ferlið eitthvað styttra en lesendum kann að þykja þetta skjóta skökku við, þ.e. að flýtimeðferðin taki allt að 17 árum.  Fólk gæti spurt sig, er það flýtimeðferð?

Lokaorð

Ef stjórnvöldum er alvara með að byggja græna raforku upp hratt og örugglega svo forða megi frekari díselmengun sem gengur gegn loftslagsmarkmiðum, forða stórkostlegum efnahagslegum skaða á þjóðarbúið og forðast að greiða milljarða í sektir ef kolefnismarkmið nást ekki, þá þarf frumvarp um græna orku sem virkilega leysir málið.  Það frumvarp sem nú liggur fyrir um að fanga vindorku í rammaáætlun gengur þvert gegn markmiði sínu um að flýta uppbyggingu.

Er ekki kominn tími á að einfalda leyfisveitingaferli grænnar orku?  Fella niður rammaáætlun og setja upp 1 leyfi sem tekur 1 ár að sækja?  Er í alvöru hægt að segja að 17 ára „flýtimeðferð“ flýti málinu?

Höfundur er framkvæmdastjóri StormOrku.