Enginn efast um að Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, hefur tekist vel upp í að breyta ásýnd flokksins

Enginn efast um að Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, hefur tekist vel upp í að breyta ásýnd flokksins

Hún kemur vel fyrir og er málefnaleg. Ákvörðun hennar um að láta Viðreisn um að berja hausinn við ESB-steininn og hætta að keppa við Pírata í dyggðaskreytingum og vandlætingarupphlaupum hefur aukið fylgi flokksins.

En þó að ásýndin sé breytt og Kristrún sé frambærilegur leiðtogi þá er stefnan enn hin sama. Búið er að umhella gömlu víni á nýja belgi. Týr sá þess rækileg merki í Silfrinu á mánudagskvöldið.

Þar var rætt um efnahagsmálin og þar með talið verðbólguna og ástandið á fasteignamarkaðnum. Í þeirri umræðu hafði formaður Samfylkingarinnar ekkert til málanna að leggja annað en aukningu ríkisútgjalda og skattahækkanir. Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hafði margt til málanna að leggja og Þórhildur Sunna Pírati ekkert. Týr er enn að reyna skilja hvað Sigmundur Davíð Guðlaugsson, formaður Miðflokksins, hafði fram að færa.

Kristrún kvað við gamalkunnugt stef að fjármagna ætti slík útgjöld með enn frekari skattheimtu á sjávarútveg og hækkun fjármagnstekjuskatts. Fjárlög næsta árs gera ráð fyrir að heimtur ríkisins af fjármagnstekjum verði um fimmtíu milljarðar á næsta ári. Kristrún vill hækka skattheimtuna um tæpan helming eða um tuttugu milljarða þannig að skattheimtan verði 70 milljarðar.

Hvaða einstaklingar borga svo þennan fjármagnsskatt sem Samfylkingin vill hækka? Fjármagnstekjur einstaklinga námu samkvæmt Hagstofunni um 240 milljörðum í fyrra. Fólk eldra en sextugt greiddi meira en helminginn af þessari upphæð í fjármagns-tekjur. Stærsti hluti þessa hóps eru ellilífeyrisþegar.

Og þá endurtók Kristrún í þættinum að flokkurinn ætlaði að loka einhverju sem hann kallar ehf-gatið. Flokkurinn sækir hugmyndina í skýrslu ASÍ frá árinu 2021 en í henni kemur fram að hægt væri að kreista á bilinu þrjá til átta milljarða á ári með því að hækka skatta á þá sem eru í eigin rekstri með lítil einkahlutafélag.

Týr veit að Kristrún er snjall stjórnmálamaður. En hann veit jafnframt að stefnumál sem byggja á skattheimtu á eldri borgurum og einyrkjum í atvinnurekstri er ekki líklegt til vinsælda. En þá verða andstæðingarnir að útskýra það fyrir kjósendum.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 29. nóvember.