Innan Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs blása naprir vindar tortryggninnar. Þeir blása það fast að mörgum í innsta valdakjarna flokksins er orðið skítkalt. Jón Bjarnason og Ásmundur Einar Daðason eru sérlega illa liðnir í ákveðnum kreðsum flokksins.
Í eyru Týs eru þeir iðulega kallaðir framsóknarmenn sem villtust í vitlausan flokk. Ekki hjálpaði til upphlaup Ásmundar í hádegisfréttum Rúv á sunnudag. Þar hélt hann eldmessu um að fækkun ráðuneyta væri aðför að Jóni vegna andstöðu hans við ESB. Ásmundur hafði þó líkast til gleymt að lesa stjórnarsáttmála vinstristjórnarinnar þar sem skýrt er kveðið á um það markmið að fækka ráðuneytum.
***
Jón gekk síðan enn lengra í sjónvarpsviðtali um kvöldið þar sem hann svaraði spurningum fréttamanns um fækkun ráðuneyta með sögum af ferðum sínum um sveitir í nágrenni Eyjafjallajökuls. „Það rigndi sandi,“ sagði ráðherrann áður en hann vafraði stefnulaus og bendandi um Tjarnargötuna. Hann er eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem setti sig á móti fækkun ráðuneyta.
***
Í svona mótþróa kristallast einmitt vandamál þess hluta VG sem kallaður hefur verið órólega deildin. Henni tilheyra þeir Jón og Ásmundur ásamt Ögmundi Jónassyni, Atla Gíslasyni, Lilju Mósesdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Innan þessa hóps ríkir nefnilega megn óánægja yfir því að vera ekki ráðherrar í ríkisstjórn og í heildina að hafa ekki nógu mikil áhrif á framvindu landsmála.
***
Hópurinn vill ekki slíta stjórnarsamstarfinu en heldur ekki framkvæma margt af því sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Bræði Ögmundar nær aftur til þess tíma sem stjórnarmyndunarviðræðurnar fóru fram. Þá fannst honum gengið fram hjá sér þegar Steingrímur tók Katrínu Jakobsdóttur með sér í viðræðurnar frekar en hann.
***
Klofningurinn milli þessa hóps og hinna ráðandi afla innan VG kristallast í þessu. Ögmundur og órólega deildin tala alltaf um að deilurnar snúist um málefni og vinnubrögð. Hinn armurinn segir þetta snúast um persónulegan metnað og almenna sjálfhverfni. Þessar deilur eru farnar að rista svo djúpt að líkur eru á að þær muni koma í veg fyrir að Ögmundur komi aftur inn í ríkisstjórn.