Viðskiptaráð birti í síðustu viku áhugaverða skýrslu um stöðu einkarekinna fjölmiðla hér á landi. Í stuttu máli er staðan grafalvarleg og er ástæðan fyrst og fremst ægivald ríkismiðilsins yfir markaðnum.

Fram kemur í skýrslunni að RÚV sogi til sín þriðjung af öllum auglýsingatekjum á fjölmiðlamarkaði og njóti á sama tíma margra milljarða meðgjafar frá skattgreiðendum á sama tíma. Þetta þekkist ekki á Norðurlöndum.

Þó svo að sérstaklega sé kveðið á um að Ríkisútvarpið eigi að draga úr umsvifum stofnunarinnar á auglýsingamarkaði í þjónustusamningi þess við ríkið láta stjórnendur í Efstaleiti sér fátt um finnast og sækja stíft fram. Nú er komið fram að tap á rekstri RÚV í fyrra nam 200 milljónum. Magnús Ragnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum, benti á að rekstrarniðurstaðan væri til marks um að stofnunin væri að undirbjóða auglýsingamarkaðinn.

Augljóst virðist að skilvirkasta leiðin til að efla stöðu fjölmiðla sé að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði, afmarka hlutverk þess betur og sníða reksturinn að því. Logi Einarsson menningarmálaráðherra hefur þegar boðað að fjölmiðlaumhverfið verði tekið til heildstæðrar endurskoðunar – Ríkisútvarpið ekki undanskilið – og boðað frumvarp næsta haust þar að lútandi.

Hann hefur hins vegar ákveðið að taka forskot á sæluna þegar í þessum mánuði með frumvarpi um stuðning við einkarekna miðla. Þar ætlar hann að taka fyrsta skrefið í að skera frekar við nögl stuðning við stærstu miðlana, einmitt þeirra sem standa undir nær öllum frumfréttaflutningi í landinu og eru helsti vettvangur þjóðmálaræðu.

Ekki er þó að sjá af minnisblöðum úr ráðuneytinu, sem fjölmiðlar hafa greint frá síðustu daga, að þar að baki búi nokkur rannsókn ráðherra og ekki eru tínd til nein rök fyrir því að lækka þakið á stuðningi til einstakra útgáfufyrirtækja.

Sú breyting bitnar einvörðungu á Árvakri og Sýn, en miðlar þeirra hafa einmitt verið í fararbroddi við afhjúpun á margháttaðri óreiðu tengdri Flokki fólksins, þingmönnum hans og ráðherrum. Sú ótrúlega tilviljun að frumvarpið komi fram rétt eftir að nefndarformaður samstarfsflokks menningarmálaráðherrans hafði uppi hótanir um hefndir gegn fjölmiðlum er ekki til þess fallin að auka tiltrú á því eða eðilegum stjórnarháttum í lýðræðisríki.

Þvert á móti endurspeglar hún nákvæmlega þá hættu, sem varað var við á þessum stað þegar fyrst var fjallað um nýtt styrkjakerfi fjölmiðla, að þegar miðlarnir eru orðnir háðir fjárveitingavaldinu geti óvandaðir stjórnmálamenn illa staðist freistinguna að toga í tauminn. Að varðhundar almennings hætti að gelta og verði kjölturakkar stjórnvalda.

Óháð því bendir ekkert til þess að rekstrarumhverfi fjölmiðla og þar með talið Ríkisútvarpsins verði fært til skynsamlegra horfs með því frumvarpi. Þannig skrifaði Þórður Snær Júlíusson, hinn umdeildi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, grein á Vísi um málið í síðustu viku.

Þórður segir í grein sinni að það eigi ekki að taka RÚV af auglýsingamarkaði vegna þess að auglýsendur vilja það ekki. Það verður að teljast eftirtektarvert að Samfylkingin taki upp hanskann fyrir auglýsingastofur og birtingarhús í máli sem varðar grundvöll frjálsrar umræðu og skoðanaskipta hér á landi. Afstaða auglýsingastofanna er skiljanleg, en minnir um margt á afstöðu stórra víninnflytjanda til aukins frjálsræðis í viðskiptum með áfengi. Af því það hentar sérhagsmunum þeirra.

Þá segir Þórður alls ekkert víst að brotthvarf Ríkisútvarpsins af auglýsingamarkaði skili sér í auknum tekjum einkarekinna miðla. Nefnir hann gjaldþrot Fréttablaðsins í þessu samhengi. Ekki er vel ljóst hvað framkvæmdastjórinn er að fara með þeim röksemdum. Þegar síðasta tölublaði Fréttablaðsins er flett má þar líta Nova, Blómaval, Hagkaup og bílaumboðin, en ekki er að sjá að þau ágætu fyrirtæki hafi horfið af auglýsingamarkaði við gjaldþrot blaðsins.

Viðbúið er að stjórnvöld hyggist ekki taka á þeim vanda sem fylgir ægivaldi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það mun þrengja enn frekar að stöðu frjálsra fjölmiðla hér á landi. Það sinnuleysi mun reynast ákaflega dýrkeypt þegar fram í sækir og vekja alvarlegar spurningar – hér á landi sem á alþjóðavettvangi – um afstöðu stjórnvalda til tjáningarfrelsis og fjölmiðlunar, sem eru hverju lýðræðisríki bráðnauðsynleg.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 12. mars 2025.