Eins og oft áður hlustuðu hrafnarnir á Vikulokin á Rás 1 síðasta laugardag.
Höskuldur Kári Schram stjórnaði þættinum en með honum sátu þingmennininr Teitur Björn Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson og Orri Páll Jóhannsson. Hrafnarnir hnutu um að þáttastjórnandinn sagði í byrjun þáttar að hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra „hefði ekki verið að fullu í samræmi við lög“? Er það virkilega?
Hrafnarnir stóðu í þeirri meiningu að umboðsmaður Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að bannið hafi alls ekki verið í samræmi við lög og því lögbrot. Hrafnarnir velta þessari afstæðishyggju þáttastjórnandans fyrir sér og hvort hann sé að fylgja útskýringum matvælaráðherrans á því að lögin um hvalveiðar séu svo gömul og úrelt að það skipti engu máli hvort þau séu brotin. Rétt eins og þau hafi verið sett af sjálfum Hammúrabí á sínum tíma og jafnvel þá þótt vera hálfgerður leir – í bókstaflegri merkingu.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 17. janúar 2024.