Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, hefur sent hluthöfum sínum enn eitt bréfið.
Hrafnarnir velta fyrir sér hvort Jóni þyki ekki dálítið leiðinlegt að þeir skrifi honum aldrei til baka – en það er svo sem önnur saga. Bréf Jóns er, eins og áður, bæði yfirgripsmikið og nauðsynleg lesning fyrir þá sem vilja fylgjast með gangi mála í íslensku efnahagslífi. Meðal þess sem hann víkur að er fyrirhuguð sameining Arion banka og Kviku, en Stoðir eiga verulegan eignarhlut í báðum bönkum.
Jón segist ekki sjá neitt sem standi í vegi fyrir sameiningunni, enda ríki mikil samkeppni á öllum sviðum bankaþjónustu hér á landi. Hrafnarnir taka undir þetta, en vita sem er að Samkeppniseftirlitið hér á landi er óútreiknanlegt, og engin leið er að vita hvernig Páll Gunnar Pálsson, forstjóri þess, mun taka á samrunanum. Þeir hafa þó heyrt reynslubolta á fjármálamarkaði benda á að Benedikt Gíslason, bankastjóri, gæti átt krók á móti bragði í þessum efnum: að beita sér fyrir því að samþykktum bankans yrði breytt á hluthafafundi, þannig að tilgangur hans yrði rekstur kjötafurðastöðva. Það ætti að tryggja að Samkeppniseftirlitið gerði engar athugasemdir við sameininguna.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.