Það er eðlilegt að velta vöngum yfir þeim ákvörðunum sem fjármálastöðug-leikanefnd Seðlabankans tók í síðustu viku. Svokallaður kerfisáhættuauki bankanna var lækkaður úr þremur í tvö prósent en að sama skapi var eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki – Arion, Íslandsbanka og Landsbankann – hækkaður úr tvö í þrjú prósent.

Þó svo að talsmenn Seðlabankans hafi sagt að þessi aðgerð ætti ekki að hafa neikvæð heildaráhrif á stóru bankana verður það ekki reyndin. Þannig dregur síðari aðgerðin verulega úr samkeppnishæfni þeirra þegar kemur að erlendum lánveitingum. Það verður að setja í samhengi við annað í regluverki íslenskra fjármálafyrirtækja sem virðist rétt eins og skattaumhverfið sem þau starfa í verið hannað til þess eins að gera fjármálaþjónustu eins dýra og hugsast getur og velta eins miklum kostnaði á þá útgerð alla og mögulegt er.

Rökstuðningur Seðlabankans fyrir þessari ákvörðun var líka fátæklegur og ekki til þess fallinn að efla trúverðugleika bankans. Í minnisblaði með rökstuðningi nefndarinnar segir:

„Það er því ljóst að hver um sig eru bankarnir kerfislega mikilvægir fyrir íslenska hagkerfið enda líklegt að fall eins þeirra myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi og að öllum líkindum hafa talsverð smitáhrif í för með sér fyrir önnur fjármálafyrirtæki og hagkerfið í heild.“

Þá er bent á að hlutdeild kerfislægu bankanna í heildarstærð kerfisins, metið út frá heildareignum, var um 80 prósent, hlutdeild í innlánum einkageirans um 94 prósent og hlutdeild þeirra í útlánum til einkageirans væri tæplega 90 prósent. Gott og vel. En hvað hefur breyst í þessum efnum frá síðustu ákvörðun nefndarinnar sem kallar á aðgerðir? Ekki neitt.

Þetta minnir um margt á þegar bankinn ákvað fyrr á þessu ári að hækka bindiskyldu vaxtalausra innlána í Seðlabankanum úr 2% yfir í 3%. Kostnaður bankanna vegna þessa hleypur á átta til níu milljörðum.

Röksemd Seðlabankans fyrir hækkun bindiskyldunnar hafði ekkert með markmið peningamálastefnunnar að gera. Hún sneri að því að Seðlabankinn vildi láta bankana borga fyrir gjaldeyrisforðann. Að sama skapi viðurkenndi Seðlabankinn í tilkynningu um breytinguna að gjaldeyrisvaraforðinn væri almannagæði sem eðli málsins samkvæmt gagnast öllum en ekki bara fjármálafyrirtækjum.

Í skýrslu sem gerð var nýlega fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu kemur fram að vogunarhlutfall íslenska bankakerfisins er það hæsta í Evrópu, sem og bindiskylda, auk þess sem við búum við hæstu skatta á banka í Evrópu. Í
skýrslunni er einnig fjallað um svokallað Íslandsálag, sem er að miklu leyti heimatilbúinn vandi og felst í því að vaxtastig er í kringum einu prósentustigi hærra en það þyrfti að vera. Sá heimatilbúni vandi birtist meðal annars í því að skattbyrði íslenska bankakerfisins er sú langmesta í Evrópu í hlutfalli við áhættuvegnar eignir.

Eins og Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, hefur bent eru það hluthafar bankanna og viðskiptavinir bankanna sem bera kostnaðinn af þessu Íslands-álagi. Hann segir álagið vera í raun skatt á þá sem skulda en ekki þá sem eiga – að minnsta kosti þá sem eiga eitthvað annað en hlutafé í bönkunum. Það er ágætt að hafa þetta í huga í ljósi þess að miklar líkur eru á því að ríkisstjórn, kennd við skjaldmeyjar, sem er við það að líta dagsins ljós muni hækka bankaskattinn.

Benedikt ritaði áhugaverða grein á Vísi á dögunum. Þar bendir hann meðal annars á að með einföldum breytingum á regluverki bankanna gætu þeir veitt óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til sjö til tíu ára á mun hagstæðari kjörum en á slíkum fastvaxtalánum í dag. Benedikt bendir á fleira sem hægt væri að gera til að gera fjármálaþjónustu samkeppnishæfari hér á landi. Það er löngu tímabært að slíkar hugmyndir verði teknar til umræðu og gerðar að grundvelli faglegrar umræðu um stöðu fjármálageirans hér á landi og hvað sé hægt að gera til þess að gera veitingu fjármálaþjónustu hagstæðari fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.