Útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka hófst í vikunni. Afslátturinn á markaðsverði Íslandsbanka í útboðinu getur verið fimm prósent.

Þetta þýðir að þingmenn á borð við Sigmar Guðmundsson, Guðbrand Einarsson, Loga Einarsson, Ingu Sæland ásamt Kristrúnu Frostadóttur, sem gagnrýndu harðlega að síðasta útboð í bankanum fór fram með fjögurra prósenta afslætti, bjóða nú enn betur. Miklir menn erum við, Hrólfur minn – og allt það.

Hrafnarnir furða sig annars á því að ríkisstjórnin hafi ekki leitað til Guðmundar Björgvins Helgasonar ríkisendurskoðanda eftir ráðgjöf – hann reiknaði upp á aukastaf hvert gengið í útboðinu árið 2022 hefði átt að vera.

Að útboði loknu verða nöfn allra þeirra sem tóku þátt birt opinberlega. Hrafnarnir telja að það færi vel á því, og væri í anda þess siðferðislega yfirlætis þeirra stjórnarþingmanna sem hæst létu eftir síðasta útboð Íslandsbanka, að sá listi yrði negldur við hurðina á alþingishúsinu. Vel færi á því að annálaður siðapostuli yrði fenginn til þess verks. Hrafnarnir leyfa sér að stinga upp á að Henry Alexander Henrysson taki það að sér.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. maí 2025.