Spéfuglinn Jón Gnarr hefur hafið þingmannsferil sinn af miklum krafti og virðist ætla að leysa Píratann Björn Leví Gunnarsson af sem fyrirspurnakonungur Alþingis. Björn Leví nýtti sér eins og frægt er orðið fyrirspurnir til ráðherra á sama hátt og almenningur nýtir sér leitarvélar á netinu.

Til marks um að arftaki Björns Levís sé loks fundinn lagði Jón nýverið fram fyrirspurn til Eyjólfs Ármannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um hver séu þrjátíu algengustu ættarnöfn, íslensk og erlend, sem skráð eru í Þjóðskrá og hversu margir bera hvert ættarnafn. Þá kallar Jón einnig eftir upplýsingum um hvort Þjóðskrá geri greinarmun á íslenskum og erlendum ættarnöfnum.

Viðreisnarmaðurinn hefur einnig slegið í gegn á pöllum þingsins en í kosningabaráttunni hafði hann orð á því að menntamálin væru hans helsta áherslumál. Aftur á móti virðist sú afstaða hafa breyst því klæðaburður þingmanna, og reglur sem honum tengjast, hefur verið Jóni efst í huga. Í liðnum störf þingsins hefur hann í tvígang sett klæðaburð á dagskrá og lagði m.a. til að þingmönnum yrði gert að klæðast einkennisbúningum, t.d. skikkjum og hárkollum.

Hrafnarnir styðja þessa hugmynd enda löngu kominn tími til að hefja Alþingi til fyrri vegs og virðingar.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.