Hrafnarnir sjá að Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra hefur tekist að ná markmiði sínu um að hagnaður sé af rekstri bankans.
Hagnaður bankans nam 1,7 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 32,2 milljarða tap á sama tímabili í fyrra. Það er fyrst og fremst veiking krónunnar á tímabilinu og ígildi skattheimtu Seðlabankans sem skilar grænum tölum. Sem kunnugt er þá ákváðu stjórnendur Seðlabankans að hækka vaxtalausa bindiskyldu innlána bankanna í vor og má búast við að með því renni 8 til 9 milljarðar frá hluthöfum viðskiptabankanna til Seðlabankans á ári hverju.
Röksemd Seðlabankans fyrir þessari ákvörðun var að bankarnir ættu að taka þátt í þeim kostnaði sem hlýst af því að halda úti stórum gjaldeyrisforða. Í ljósi þessa velta hrafnarnir fyrir sér hvort ekki sé rétt að viðskiptabankarnir fái hlutdeild í hagnaði Seðlabankans vegna veikingar krónunnar – eða halda menn áfram að ríkisvæða gróðann og einkavæða tapreksturinn.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. október 2024.