Það er stundum eins og mönnum leyfist að halda hverju sem þeim dettur í hug um verðlag og þjónustu fyrirtækja án þess að bera nokkra ábyrgð á orðum sínum. Því

Það er stundum eins og mönnum leyfist að halda hverju sem þeim dettur í hug um verðlag og þjónustu fyrirtækja án þess að bera nokkra ábyrgð á orðum sínum. Því miður ala sumir stjórnmálamenn og fjölmiðlar á þessari tortryggni og hefur sú tilhneiging farið vaxandi á undanförnum árum.

Skemmst er að minnast þess þegar ráðamenn í ríkisstjórninni, aðrir stjórnmálamenn og verkalýðsfélög reyndu að telja almenningi trú um að einkafyrirtæki bæru ábyrgð á verðbólgunni sem skapaðist vegna of lágs vaxtastigs á tímum heimsfaraldursins og hækkana á hrávöru í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þessu var haldið fram fölskvalaust án þess að nokkur merki um svokallaða „gróðaverðbólgu“ væri að finna í framlegð eða annarri afkomu fyrirtækja. Þær staðreyndir breyttu litlu um málflutningin enda leikurinn ekki til þess gerður að komast að hinu rétta í málinu.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að halda uppi gagnrýni á frammistöðu fyrirtækja og fylgjast vel með verðlagi. Það er nauðsynlegur þáttur heilbrigðs samkeppnisumhverfis. En slík umræða missir algjörlega marks og er jafnframt skaðleg ef hún byggist ekki á vitrænum grunni.

Í síðustu viku vakti Alþýðusamband Íslands athygli á þeirri skoðun sinni að engin eða lítil samkeppni væri á milli verslana með raftæki hér á landi. ASÍ byggði þessa skoðun sína á úttekt sem sýndi að lítill verðmunur væri á milli þekktra vörutegunda í Elko annars vegar og Heimilistækjum hins vegar.

ASÍ bar sem sagt verð á sömu vöru í verslununum tveimur og niðurstaðan að verðmunurinn var hverfandi í flestum tilfellum. Fréttavefurinn Vísir fjallaði meðal annars um málið og hafði eftir talsmanni ASÍ að þetta væri til marks um að „samkeppni hefði verið slegið á frest“ og að „vopnaður friður“ ríkti á markaðnum með raftæki – hvað sem það svo þýðir.

Þessi afstaða endurspeglar það sjónarmið að því meiri sem munurinn er á verðlagi á sambærilegri vöru á milli verslana því meiri hljóti samkeppnin að vera. Þetta stenst enga skoðun. Tvær verslunarkeðjur sem selja vörur frá þekktum raftækjaframleiðendum búa við sambærileg innkaupaverð, launakostnað, leigukostnað og fjármagnskostnað. Það að verðið á vörunum sé svipað er merki um að samkeppni ríki á markaðnum og svigrúm verslana til þess að auka álagningu er takmarkað.

Enda felur hagfræðikenningin um hinn fullkomna markað það í sér að á honum starfi fjöldi fyrirtækja sem selji allar vöru á sama verði þar sem samkeppnin sér til þess að verð getur hvorki verið hærra né lægra en jaðarkostnaðurinn. Þegar samkeppnin er heilbrigð þá er svigrúm verslana til þess að hækka verð langt umfram það sem þekkist á markaðnum afskaplega takmarkað.

Þarfnist menn frekari sannana við er hægt að horfa til þess mikla fjölda verslana sem selja nikótínpúða á höfuðborgarsvæðinu. Það eru ekki miklar aðgangshindranir á þeim markaði enda er verðið afskaplega svipað frá einni verslun til annarrar og gildir einu í hvaða borgarhluta viðskiptin fara fram. Enginn hélt því fram að Húsavík væri Mekka frjálsrar samkeppni þegar upp komst um árið að þar voru menn að selja ferðamönnum rúnstykki á annað þúsund krónur meðan hægt var að fá það á umtalsvert lægra verði í nálægum bakaríum. Þvert á móti.

Svo virðist að sérfræðingar Samkeppniseftirlitsins geri sér ekki grein fyrir þessum staðreyndum. Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu fyrir nokkrum vikum þá hampar eftirlitið mjög niðurstöðu könnunar sem sýnir að helsta umkvörtunarefni íslenskra neytenda þegar kemur að samkeppnisumhverfinu lítill verðmunur.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 12. júní 2024.