Í úthverfi Stafangurs
Það er komið kvöld. Á drapplituðum Ektorp sófa í tvílyftu raðhúsi sitja íslensk hjón og hvíla sig eftir daginn. Hann er iðnaðarmaður, hún er hjúkrunarfræðingur. Börnin eru komin í háttinn, og byrjuð að dreyma norskuskotna drauma. Heimilishundurinn liggur við hliðina á sófaborðinu og hrýtur.
„Langar þig aldrei aftur til Íslands?“ spyr hún.
„Jú, auðvitað,“ svarar hann. „Af og til. En þú veist við getum ekki flutt á meðan … staðan er eins og hún er…“
„Nei, sammála,“ jánkar hún. „Við getum ekki flutt fyrr en það er búið að…“
„…setja Miklubrautina í stokk!“ segja þau saman einum rómi.
„Og fjölga mislægum gatnamótum,“ segir hún.
„Já, eða fá lengri strætisvagna og láta þá keyra á sérakreinum!“ segir hann.
„Sammála, við förum ekki einu sinni að spá í að flytja heim fyrr en allar þessar samgöngubætur verða að veruleika!“
Fólk flytur vegna vinnu
Hagstofa Bandaríkjanna framkvæmir reglulegar mælingar á ástæðum þess að fólk flytur. Þrjár ástæður vega þar langþyngst.
Í fyrsta lagi flytur fólk út af húsnæði: fólk flytur því það vill stækka við sig eða vill lækka húsnæðiskostnaðinn. Í öðru lagi flytur fólk af fjölskylduástæðum, fólk byrjar í sambandi, fólk vill vera nær foreldrum sínum, fólk eignast börn og vantar stuðningsnet eða flytur aftur á heimaslóðir. Þriðja ástæðan er atvinna: fólk flytur vegna þess að það fær ekki vinnu eða fær betur launaða vinnu annars staðar.
Stöldrum aðeins við seinasta þáttinn, atvinnuna. Atvinnuástandið í Reykjavík er þannig séð gott og lítið hefur verið talað um atvinnumál í kosningabaráttunni. Samt er þörf á því. Uppgangur ferðaþjónustunnar, sem er mjög gleðilegur, býr gjarnan til þjónustustörf fyrir ófaglært fólk. Hæpið er að parið í leikþættinum hér að ofan rífi börn sín upp með rótum til að skutlast með túrista eða afgreiða á fjölþjóðlegri veitingahúsakeðju. Við þurfum fjölbreytni.
Lækkum skatta á atvinnuhúsnæði
Þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja þarf Reykjavík að standast samkeppni. Gerir hún það? Lítum fyrst á stöðuna innanlands: Af 10 stærstu fyrirtækjum landsins eru einungis fjögur, Icelandair, Arion banki, Landsbankinn og Samskip, með höfuðstöðvar í Reykjavík. Íslansbanki er nýfluttur í Kópavog og Icelandair er að íhuga að flytja líka.
Ég vil nefna tvo hluti úr stefnu Viðreisnar sem myndu auka samkeppnishæfni Reykjavíkur:
Í fyrsta lagi höfum við í Viðreisn sett fram tillögur um að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65% í 1,63% á árinu 2021 og síðan í 1,60% árið 2022. Við áætlum að tekjur borgarsjóðs myndu með þessu lækka um 300 milljónir á ári en á móti yrðu fasteignagjöldin nú lægri en í Garðabæ og Mosfellsbæ og jafnhá og í Kópavogi.
Í öðru lagi þarf að einfalda leyfaveitingar í Reykjavík. Alþjóðabankinn framkvæmir árlega athuganir á því hve auðvelt sé að stunda viðskipti í löndum og borgum heims. Þegar kemur að byggingarleyfum er stjórnkerfið hér á landi mælanlega svifaseint, við erum aðeins í 64. sæti. Danir eru í efsta sæti. Hér á landi þarf 17 ólík skref innan stjórnsýslunnar til að reisa vöruskemmu, meðan í Danmörku þarf 7 skref og talsvert styttri tíma.
Við eigum að vera eins og Danmörk. Þótt eitthvað af umbótunum krefjist lagabreytinga eiga flest skrefin sér stað innan embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík svo sannarlega er tækifæri til sameina umsóknir og stytta biðtíma.
Uppbygging íbúðahúsnæðis fylgir sömu lögmálum og myndi líka ganga hraðar fyrir sig ef ferlið hjá skipulagsfulltrúa, byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlitinu væri skilvirkara. Þeir flokkar sem lofa hraðari uppbyggingu íbúða, oftar en ekki með þeim hætti að borgin sjálf dragi fram skóflur, skilja ekki að töfin snýst ekki um skort á svæðum til að byggja á eða aðilum sem væru til að byggja á þeim. Töfin er að einhverju leyti sjálfsköpuð.
Einfaldara rekstrarumhverf
Sprotafyrirtækið Numbeo.com heldur utan um verðlag, laun og ferðatíma víða um heim. Niðurstöðurnar sýna að ástandið í Reykjavík er um margt gott. Reykjavík er borg þar sem fólk upplifir sig öruggt, borg þar sem ferðatími er hóflegur samanborið við margar aðrar borgir. Lífsgæði í Reykjavík eru almennt góð.
En þegar kemur að kaupmætti þá stöndum við enn illa. Kaupmáttur í Reykjavík er 20% lægri en í Kaupmannahöfn. Við í Viðreisn vitum að hærri kaupmáttur helst oftar en ekki í hendur við öflugra atvinnulíf. Við leggjum til lægri fasteignaskatta, við viljum auðvelda uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og við viljum einfalda stjórnsýslu þegar kemur að hvers kyns leyfaveitingum. Við viljum að það verði einfaldara að reka fyrirtæki í Reykjavík.
Höfundur skipar annað sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík .