Þegar líða fer að hátíðum er ekki úr vegi að útbúa heimagert súkkulaði og nammi til að hafa með kaffinu. Það er einmitt þetta litla dúllerí sem gefur svo mikið. Það er þó frekar mikið vesen að gera konfekt. Steypa það, fylla, kæla, loka, hjúpa o.s.frv. Þetta getur tekið mjög langan tíma en getur líka verið mjög fallegt ef vel tekst til. En þetta er verkefni fyrir dúllara. Fólk sem hefur mikla þolinmæði.

Það er þó til tegund af konfekti sem er alveg jafn góð (jafnvel betri ef eitthvað er) og þessi fyllta týpa. Það eru trufflur. Svo finnst mér þær líka svo fallegar. Heimagerða áferðin og engin eins. Hver truffla er einstök. Þær er hægt að útbúa með mörgum mismunandi bragði. Það er hægt að útbúa trufflu „deigið“, setja það í box og geyma inní ísskáp í lengri tíma. Svo er hægt að móta nokkrar kúlur rétt fyrir kvöldið, velta þeim upp úr flórsykri, kakói eða hverju sem mann langar til og borða þannig nýlagaðar trufflur á hverju kvöldi.

Hér er uppskrift af Baileys trufflum sem ég gerði á Fiskmarkaðnum fyrir jólin í fyrra og vöktu þær mikla lukku hjá gestunum okkar.

  • 175g súkkulaði
  • 60 ml rjómi
  • 60 ml Baileys
  • 2 stk eggjarauður
  • 1 msk lint smjör

Aðferð : Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði. Bætið rjómanum út í ásamt Baileysinu. Bætið loks eggjarauðunum saman við ásamt smjörinu og blandið vel saman með plastsleikju. Setjið „deigið“ í box og kælið yfir nótt (eða í lengri tíma). Mótið hæfilegar kúlur úr deiginu og veltið þeim upp úr flórsykri.

Einföld og góð uppskrift sem gott er að eiga við höndina :-)

Pistill Hrefnu Sætran birtist í Viðskiptablaðinu 1. nóvember 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum Tölublöð.