Lög varðandi fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða settu þak á erlendum gjaldmiðlum við hreina eign hvers sjóðs við 50% um aldamótin. Þetta þak hefur að mestu leyti haldist stöðugt síðan þá. Árið 2023 voru þó lög samþykkt um að hækka þetta hámark í 1,5% árlegum skrefum í átt að 65% og er það nú komið í 53%. Ég set spurningarmerki við að hafa slíkt þak.
Mörg ríki hafa ekkert slíkt. Norski olíusjóðurinn fjárfestir til dæmis eingöngu á erlendum mörkuðum. Það er meira aðkallandi að smáþjóð eins og Ísland eigi að byggja lífeyrissjóðakerfi sitt í meira mæli á erlendum mörkuðum og sé eitthvað þak yfir höfuð, þá eigi það að vera í tengslum við vægi innlendra eigna.
Söguleg gögn
Rannsóknir sýna að aukið vægi í erlendum fjárfestingum hafi skilað árangri. Dimson, Marsh, og Staunton litu til sögulegra gagna hlutabréfavísitalna margra ríkja og báru saman ávöxtun og flökt, gjarnan þekkt sem Sharpe-hlutfallið, með það fyrir augum hvort skynsamlegt væri að fjárfesta innanlands eða vera með alþjóðlega fjárfestingastefnu. Niðurstöður þeirra sýna að hjá flestum þjóðum er sögulega betra að fjárfesta á alþjóðavettvangi. Ein veigamikil undantekning voru bandarískir fjárfestar, sem hefðu betur „setið eftir heima,“ en höfundar benda á að bæði er bandarískt efnahagskerfi óvenju fjölbreytt og þeir leiða einnig að því líkum að þrátt fyrir það sé það skynsamlegt fyrir bandaríska fjárfesta að dreifa eignasamsetningu sinni. Þó skiptir þetta smáum þjóðum mestu máli.
Gylfi Magnússon og Kári Sigurðsson rannsökuðu nýlega ávinningin af erlendri fjárfestingu fyrir íslenska fjárfesta. Niðurstöður þeirra styðja við ofangreindar niðurstöður. Erlendar eignir bæta hlutfall ávöxtunar og áhættu um 34% miðað við innlent safn. Meðalávöxtun umfram áhættulausa vexti hækkar um 0,94 prósentustig fyrir safn með 10% staðalfrávik. Auk þess draga erlendar eignir úr líkum á öfgakenndri ávöxtun, sem styrkir mikilvægi alþjóðlegrar dreifingar til að minnka sveiflur og bæta áhættudreifingu.
Gjaldeyrisáhætta
Oft þegar fjallað er um kosti erlendra fjárfestinga benda sumir aðilar réttilega á að aukið vægi í erlendum fjárfestingum auki hættu á flökti í ávöxtun vegna sveiflna íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum. Sé þessi áhætta skoðuð nánar þá sést að flöktið virkar meira sem vörn, eða trygging gegn niðursveiflum, frekar en áhætta. Þegar efnahagur Íslands styrkist þá á hið sama við um íslensku krónuna gagnvart erlendum myntum.
Nýlegt dæmi um slíkt er aukning erlendra ferðamanna á síðasta áratug sem leiddi til styrkingu íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum. Það gerðist þó á tíma þegar efnahagurinn hérlendis var í blóma. Þegar að COVID-19 faraldurinn skall á, sem olli miklum samdrætti hérlendis því ferðamenn voru skyndilega ekki á hverju strái, þá veiktist íslenska krónan mikið. Samhliða því féll virði íslenskra og erlendra hlutabréfa mikið. Veiking íslensku krónunnar olli því þó að í þeim þrengingum varð minna tap á erlendum eignum í íslenskum krónum talið.
Ekki áhætta heldur öryggisventill
Þetta dæmi er þó smámunir miðað við tapið árið 2008, þegar tap íslenskra lífeyrissjóða nam 25-30% með tilheyrandi skerðingum á réttindum fólks á versta tímapunkti fyrir marga. Hefðu lífeyrissjóðir haft 70-80% eigna sinna á alþjóðagrundu þá ekki víst að nokkurt tap hefði þá yfir höfuð átt sér stað. Þó að verðfall hafi átt sér stað á erlendum hlutabréfamörkuðum þá var ávöxtun skuldabréfa með ágætum og íslenska krónan helmingaðist í virði frá árslokum 2007 til ársloka 2008, sem hefði veitt jákvæða ávöxtun í íslenskum krónum talið. Þetta hefði því verið öryggisventill fyrir íslenska lífeyrisþega, sérstaklega þá sem voru þá að nálgast eftirlaunaaldri, en vissulega hefði ávöxtunin árin áður verið slakari þegar bjartsýni um komandi ár í efnahagslegum skilningi voru allsráðandi.
Því ætti að afnema þak á erlendum fjárfestingum fyrir lífeyrissjóði Íslands.
Höfundur er Dósent við Háskóla Íslands og situr í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins.